Bresk stjórnvöld hafa bannað fjarskiptafyrirtækjum í Bretlandi að nota búnað frá kínverska tæknifyrirtækinu Huawei, við uppbyggingu á 5G neti Bretlands. Fjarskiptafyrirtækin þurfa að hætta að kaupa búnað frá kínverska fyrirtækinu fyrir næstu áramót. Þetta kemur framá fréttavef BBC.
Oliver Dowden, ráðherra starfrænna mála í Bretlandi, tilkynnti um ákvörðunina í breska þinginu í hádeginu í dag. Hann sagði ákvörðunina vera tekna af öryggisástæðum en Huwei hefur verið sakað um að starfa í umboði kínverskra stjórnvalda.
Fjarskiptafyrirtæki í Bretlandi hafa til ársins 2027 til þess að losa sig við allan búnað frá Huawei úr fjarskiptakerfum sínum.
Um er að ræða stefnubreytingu hjá bresku ríkisstjórninni en hún samþykkti fyrr á þessu ári að Huawei fengi að taka þátt í að setja upp 5G netkerfi landsins. Bandaríkjamenn hafa sett mikinn þrýsting á bresk stjórnvöld um að kaupa ekki búnað frá Huawei af öryggisástæðum.
Ákvörðunin var tekin eftir fund ríkisstjórnarinnar með þjóðaröryggisráði Bretlands. Dowden sagði í þinginu í dag að þetta hafi ekki verið auðveld ákvörðun en hún sé að engu síður rétt. Hann sagði að þetta myndi hægja á uppsetningu 5G háhraðanetkerfis í Bretlandi um eitt ár.