Akureyrska ferðaþjónustufyrirtækið Niceair hefur enn ekki fengið neinar frekari skýringar á hvers vegna flugvél á þeirra vegum fékk ekki að fljúga með farþega sem keypt hefðu miða um borð í vél Niceair sem átti að fljúga frá Lundúnum til Keflavíkur. Þetta segir Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Niceair í samtali við Fréttablaðið.

Frétta­blaðið greindi frá því í gær að flug­vél á vegum Niceair hafi flogið tóm frá Lundúnum til Kefla­víkur í gær. Mögulegur skortur á heimildum Hifly til áætlunarflugs í Bretlandi hafi verið til fyrirstöðu, svo virðist sem að þau hafi ekki haft leyfi til að fljúga áætlunarflug til Bretlands. Þorvaldur segist ekkert hafa fengið að vita ástæða fyrir vandræðunum sé og vill ekki tjá sig frekar um það.

Hifly er flugfélag sem leigir út vélar sínar til flugfélaga, ýmist í formi leiguflugs eða áætlunarflugs.

„Við skiljum ekki alveg hvað þetta gengur út á enn þá,“ segir Þor­valdur. Hann segir málið standa hjá breskri stjórn­sýslu.

„Við erum búin að fá þau svör eftir við­töl við breska stjórn­sýslu að það verði ekki nein röskun á næstu flug­ferðum til Lundúna og að þetta muni allt reddast,“ segir hann en næsta ­ferð Niceair til Lundúna er á mánu­daginn.

Þor­valdur segist hafa fengið góðan stuðning hjá ís­lenskri stjórn­sýslu, bæði frá utan­ríkis­ráðu­neytinu og ferða­mála­ráð­herra. „Við höfum einnig fengið mikinn stuðning og mikla hjálp frá breska sendi­ráðinu og þetta mál er í góðum far­vegi.

Á heima­síðu Niceair má sjá að lokað hefur verið fyrir sölu á flug­ferðum til Lundúna. Þor­valdur segir fyrir­tækið vilja vera var­kárt. „Þar til við fáum skýr svör er ó­á­byrgt að hafa opið fyrir sölu, en það verða engar raskanir á fluginu á mánu­dag,“ segir hann.

Niceair keypti miða hjá öðru flugfélagi

Far­þegarnir sem áttu að fljúga með vél Niceair til Ís­lands í gær fengu farmiða í vél frá öðru flugfélagi sem flogið var til Kefla­víkur, Þorvaldur segir miða í vél hins félagsins hafa verið keypta af Niceair. Til þess að bæta þetta upp bauð Niceair far­þegunum flug á milli Kefla­víkur og Akur­eyrar.

Þor­valdur segir alla far­þega hafa þegið flug­farið sem Niceair bauð frá Kefla­vík til Akur­eyrar. „Við komum okkar far­þegum á leiðar­enda. Við náttúru­lega flugum bara sjálf til Kefla­víkur og biðum eftir far­þegunum, ekki flókið,"