„Þetta er bölvaður óþverri sem kemur frá þessu gosi,“ segir Sigurður Þ. Ragnarsson, jarð-og veðurfræðingur og að staðbundin áhrif séu ótvíræð á byggð í kring. Staðbundin veðurfarsleg áhrif geti líka orðið.

Ekki dregur þó mikið fyrir sólu þar sem gjóska er ekki mikil í gosinu, segir Sigurður en ýmsar gastegundir myndast eins og brennisteinsdíoxíð, sem verður að brennisteinssýru, saltsýru og fleiru.

"Bullandi" tæring

Tærandi áhrif í þessum efnum á t.d. hús segir Sigurður alveg „bullandi“, og nefnir brennisteinsdíoxíðið sem er mælt mjög reglulega. „Brennisteinsdíoxíð breytist þegar það kemst í námunda við vatn og vatnsgufu, í brennisteinssýru, og þá fer að rigna bara brennisteinssýru, blandaðri við vatn. Brennisteinssýra er ein af okkar sterkustu sýrum.“

Grindavík
Fréttablaðið/Ernir

Ómáluð þök tærast

Um skemmdir á húsum fólks, þá er að þessu að huga fyrir húseigendur í Grindavík: „Þeir sem eru ekki með máluð þök og búa í Grindavík og vindur liggur yfir bæinn frá gosstöðvunum, þeir eru bara í mjög vondum málum með þessi hús því þetta tærir upp, ekkert ósvipað og ryðan en aðeins öðruvísi samt og það gildir þá einu hvort það er járn eða ál,“ segir Sigurður.

Möguleg áhrif verða á hitastig. „Þessar gastegundir sem koma þarna upp þær geta drukkið í sig hita undan sólarljósinu,“ bendir Sigurður á og allt konar gufur stígi upp, ekki bara vatnsgufa sem líka tekur í sig hita frá sólu.

Hiti getur hækkað

Hvort hitinn geti hækkað um allt að eina gráðu, á til dæmis afmörkuðum bletti segir Sigurð það geta gerst. „Ég held að við gætum alveg ímyndað okkur það við sérstakar aðstæður, þegar enginn vindur er og heiðríkju og þarna eru miklir gufubólstrar þannig að það getur haft þá áhrif á hitastig til hækkunar“.

Sigurður segir að efnin sem komi þarna yfir geti haft áhrif á yfirborð gróðurs og annars og breytt þannig endurskinshlutfalli sólarinnar.