Ný rannsókn sýnir að brennisteinssýra í andrúmsloftinu vegna eldgossins í Holuhrauni hafði ekki síður áhrif á öndunarfærasjúkdóma en brennisteinsdíoxíð. Um 20 prósentum fleiri heimsóknir voru á heilsugæslustöðvar vegna öndunarfærasjúkdóma og um 20 prósentum meiri lyf vegna þeirra voru tekin út.

Hanne Krage Carlsen, doktor í lýðheilsufræðum við Gautaborgarháskóla, sem vann rannsóknina með eldfjallafræðingnum Evgeníu Ilynskaja, segir niðurstöðurnar hafa komið á óvart.

Rannsóknin, sem var birt í tímaritinu Nature Communications, var unnin af Háskóla Íslands og Háskólanum í Leeds.

Ólíkt brennisteinsdíoxíðinu voru engar viðvaranir gefnar út vegna brennisteinssýrunnar sem ummyndast í mekkinum frá gosinu. Áhrif hennar voru meiri á eldra fólk og komu einkum fram samdægurs eða innan örfárra daga.

„Okkur dettur í hug að aldraðir hafi passað sig meira þegar viðvaranir komu um brennisteinsdíoxíð,“ segir Hanne sem bjó hér áður og er vel kunnug. „Þá tíu daga sem hinn ummyndaði mökkur kom var fólk ekki undirbúið.“

Þetta fannst vel í Reykjavík, rúmlega 250 kílómetrum frá Holuhrauni, haustið 2014. Vitað er einnig að agnir frá Holuhrauni bárust yfir hafið til meginlands Evrópu en engar rannsóknir eru til um heilsufarsleg áhrif gossins þar eða langtímaáhrif hérna á Íslandi.

Helstu sjúkdómarnir og einkenni voru meðal annars astmi, bronkítis, lungnabólga og nefrennsli. Einnig voru könnuð áhrif á smitsjúkdóma eins og inflúensu. Á heimsvísu valda mengandi agnir, bæði manngerð og frá eldfjöllum, þremur milljónum ótímabærra dauðsfalla á hverju ári.

Hanne og Evgenía fengu ekki aðgang að gögnum um dánartíðni hér á Íslandi og treystir Hanne sér því ekki til þess að fullyrða að einhver hafi látist vegna eldgossins.

„Það er ekki hægt að útiloka að einhver hafi dáið,“ segir Hanne „En þetta eru einn dagur hér og þar yfir fjóra mánuði og ekki sambærilegt við að búa í mengaðri risaborg.“

Aðspurð um áhrif eldgossins í Geldingadölum á heilsu fólks segir Hanne of snemmt að segja. Ólíkt því sem gerðist í Holuhrauni eru nú einnig sendar út viðvaranir vegna brennisteinssýru.

„Gosið á Reykjanesi er miklu minna en Holuhraun en á hinn bóginn er það miklu nær þéttbýlinu. Ef maður býr nálægt gosinu er ráðlegt að fylgjast vel með mengunarspánni, sérstaklega ef maður er með öndunarfærasjúkdóm.“