Talsverð brennisteinsvetnismengun mældist í nótt á höfuðborgarsvæðinu. Klukkan eitt í nótt var styrkur brennisteinsvetnis við Norðlingaholt 83,9 míkrógrömm á rúmmetra en heilduverndarmörk eru 50 míkrógrömm á rúmmetra.

Ástæðan er útblástur frá Hellisheiðarvirkjun samkvæmt Umhverfisstofnun.

„Vorum á heimleið um miðnætti og fundum mikla brennisteinslykt neðst í breiðholtsbrekkunni, þegar við komum heim í Norðlingaholt var okkur farið að svíða í hálsinn og fleiri í hverfinu fundu fyrir óþægindum,“ segir Berglind Árnadóttir, íbúi í Norðlingaholti, í kvörtun sem hún sendi á Umhverfisstofnun.

Samkvæmt tölum frá loftgaedi.is var brennisteinsmengun mest um miðnætti til klukkan eitt í nótt, en þá sýndu mælingar að magn af brennisteinsvetni í loftinu fór úr 14 míkró-grömmum á rúmmetra upp í 83,9 míkrógrömm á rúmmetra (µg/m³).

„Maður á ekki að þurfa að búa við svona mengun í þéttbýli og vera háður veðri hvort maður sleppi eða ekki,“ segir Berglind.

„Í gærkvöldi var hæg austan átt og kalt. Það eru kjöraðstæður fyrir svokallað hitahvarf en við þær aðstæður stígur mengunin síður hátt upp heldur leggst frekar með jörðinni,“ segir í svari Umhverfisstofnunar.