Konur í Íran hafa síðustu daga mót­mælt harð­lega og brennt höfuðslæður [e. hijab] sína í mót­mæla­skyni. Það gera þær í kjöl­far þess að kona, sem var í haldi lög­reglunnar, lést en hún hafði verið hand­tekin fyrir að brjóta lög um höfuð­klúta. Henni var gert að sök að bera slæðuna ekki með réttum hætti og fyrir að klæðast buxum sínum ekki heldur með réttum hætti.

Konan, Mahsa Amini, lést á spítala á föstu­dag eftir að hafa verið í dái í þrjá daga. Hún var 22 ára þegar hún lést.

Mót­mælin hafa nú staðið í fimm daga og hafa dreifst í marga bæi og borgir. Í borginni Sari, sunnan Teheran, hafa stórir hópar fólks fagnað konum sem hafa kveikt í höfuðslæðum sínum. Fólk kallar eftir því að lögreglan sem gætir þess að fólk fylgi siðgæðisreglum yfirvalda verði lögð niður.

Fjöldi fólks hefur særst í mót­mælunum en ó­eirða­lög­regla á að hafa notað tára­gas og gúmmí­kúlur á mót­mælendur um helgina. Þá er talið að þrír karl­menn hafi látið lífið í mót­mælum í gær.

Myndin er tekin 19. september í Teheran.
Fréttablaðið/Getty

Á vef breska ríkis­út­varpsins kemur fram að til­kynningar hafi komið fram um að lög­reglan hafi barið Amini í höfuðið og skellt því utan í lög­reglu­bíl.

Lög­reglan í Íran hefur þver­tekið fyrir að hafa beitt hana valdi og segja hana hafi fengið skyndi­legt hjarta­á­fall. Fjöl­skylda hennar hefur dregið þessar full­yrðingar lög­reglunnar í efa og segja hana hafa verið heil­brigða og í góðu líkam­legu standi.