Björk Eiðsdóttir
bjork@frettabladid.is
Sunnudagur 19. september 2021
12.00 GMT

Þegar fjöldatakmarkanir og útgöngubönn um heim allan festu fólk heima hjá sér tók veröldin risa tæknistökk.

Fjarfundabúnaður var orðinn staðalbúnaður hjá starfsstéttum sem áður höfðu vanist því að eiga mannleg samskipti augliti til auglitis. Kennarinn, sálfræðingurinn, starfsmannastjórinn og afi þinn hittu þig skyndilega bara á skjánum og flestir voru þeir heima á sófanum – þú líka.

En ein afleiðing þess að stara á eigin spegilmynd tímunum saman á fjarfundum er mögulega brengluð og brotin sjálfsmynd. Fyrirbærið sem um ræðir hefur verið kallað „Zoom dysmorphia“.

Nafnið er sótt í fjarfundakerfið Zoom sem flestir eru farnir að þekkja eftir einangrunartímann. Persónulega lærði ég að þekkja Zoom rétt eftir að ég vissi hvað kórónaveira væri og leyfi mér að fullyrða að ég hafi ekki verið ein á þeim báti.


Afmynduð spegilmynd


Það var dr. Shadi Kourosh, húðsjúkdómalæknir og prófessor við læknaskóla Harvard, sem samkvæmt grein breska dagblaðsins The Guardian kom fram með hugtakið sem þó er ekki orðið að formlegri greiningu. Það gerði hún eftir að hafa fundið fyrir aukningu í tímapöntunum í lagfæringar á útliti eftir að faraldurinn hófst.


Í viðtali við The Guardian lýsti Kourosh yfir áhyggjum af því að síma- og tölvumyndavélarnar hefðu neikvæð áhrif á hugmyndir okkar um eigið útlit. Sjálf líkir hún myndavélunum þó frekar við töfraspeglana sem flestir þekkja úr speglasölum og afmynda spegilmynd þess sem fyrir framan þá stendur.


Sjálf líkir hún myndavélunum þó frekar við töfraspeglana sem flestir þekkja úr speglasölum og afmynda spegilmynd þess sem fyrir framan þá stendur.


Fólk sé þannig ekki að horfa á raunverulega spegilmynd sína í myndavélunum heldur sé myndin afmynduð vegna sjónarhorns og nálægðar við vélina.

Slæmt sjónarhorn með snjallsíma


Hún sagði aukna ásókn í fegrunar­aðgerðir strax í upphafi faraldurs hafa komið sér á óvart enda var fólk á sama tíma hvatt til að forðast ónauðsynlegar læknisaðgerðir. Það voru helst lagfæringar á nefi og ennishrukkum sem urðu vinsælli og fólk kvartaði enn fremur yfir slappri húð í andliti og á hálsi.

Því fór hún að velta fyrir sér hvort þessar útlitsáhyggjur gætu mögulega tengst því að fólk ver nú auknum tíma á fjarfundum. Að fólk héldi snjallsíman­um mögulega í óhagstæðri hæð á fundunum, fyrir neðan höku og horfði þannig niður á sjálft sig.

Lesendur sem eru óvissir um að sú staða hafi neikvæð áhrif á útkomuna, ættu að gera hlé á lestri hér og gera tilraun með myndavélina.


Filteruð fegurð


Frá árinu 2015 hefur hugtakið „Snapchat dysmorphia“ verið notað, þó meira í flimtingum, og lýsir því hvernig algengi sjálfa, eða „selfies“ með ýmiss konar breytingum eða filt­erum, hefur haft áhrif á sjálfsmynd myndefnisins.

Samkvæmt grein The Guardian er þessi forveri Zoom-vandans ólíkur að því leyti að þá eru skjólstæðingarnir meðvitaðri um stöðuna. Þeir leita þá til lýtalæknis með filteraða mynd af sjálfum sér þar sem augun eru stærri, kinnbeinin hærri og húðin sléttari.

Vitandi vel að um er að ræða mynd sem er ekki alveg sannleikanum samkvæm – en að þeirra mati þó betri en sú upprunalega – og óska eftir þeirri útkomu, með aðgerð.


Þeir leita þá til lýtalæknis með filteraða mynd af sjálfum sér þar sem augun eru stærri, kinnbeinin hærri og húðin sléttari.


Þegar kemur að Zoom dys­morph­i­unni er vandinn óskýrari og ómeðvitaðri þar sem fólk áttar sig ekki á brenglaðri myndinni sem myndavélin birtir því.

Svo auðvitað hefur það ekki hjálpað sjálfsmynd margra að vera fastir heima hjá sér, jafnvel ótilhafðir og hreyfingarlausir á sófanum, skoðandi mikið breyttar myndir af öðru fólki á samfélagsmiðlum.

Samkvæmt grein í tímaritinu Psychology Today vísar hugtakið Zoom dysmorphia til tegundar af líkamsskynjunarröskun, BDD, sem kallast andlits-dysmorphia. Þeir sem af henni þjást rýna sérstaklega í nef sitt, húð, tennur, eyru og aðra hluta andlits síns og vilja breyta því og forðast félagsleg samskipti.

Ein afleiðing einangrunar og samkomutakmarkana í heimsfaraldri er lágt sjálfsmat vegna langvarandi áhorfs á sjálfan sig og aðra í gegnum vefmyndavélar sem oft sýna ekkert sérlega gott sjónarhorn. Fréttablaðið/Getty

Jafnvel þó Zoom dysmorphia finnist ekki enn í svokölluðu DSM- kerfi, eða handbók um greiningu og upplýsingar geðsjúkdóma og sé því ekki opinber greining, er þó vert að skoða hugtakið.

Ekki síst þar sem litlar líkur eru á að fjarfundir hverfi eins hratt og þeir voru kynntir til sögunnar. Enda töluverður tímasparnaður sem hlýst af þeim, svo ekki sé minnst á jákvæð umhverfisáhrifin af því að ekki sé annar hver maður fljúgandi stórborga á milli fyrir stutt spjall.


Sjötíu prósenta aukning


Beiðnir um fjarfundi með breskum lýtalæknum jukust um 70 prósent árið 2020 miðað við árið á undan. En rétt eins og kollegar þeirra í Bandaríkjunum tóku þeir bresku eftir því að heimsfaraldur hafði þau áhrif að almenningur fór að horfa meira í spegilmynd sína, ekki endilega með jákvæðri niðurstöðu fyrir sjálfsmyndina.

Bandalag breskra lýtalækna sérhæfðra í fegrunarlækningum, eða BAAPS, hefur meira að segja fundið hugtak yfir aukninguna og kalla hana The Zoom Boom, eða Zoom- sprengjuna og gaf síðasta sumar út tilkynningu til almennings varðandi læknafundi í gegnum vefmyndavél.


Bandalag breskra lýtalækna sérhæfðra í fegrunarlækningum, eða BAAPS, hefur meira að segja fundið hugtak yfir aukninguna og kalla hana The Zoom Boom, eða Zoom- sprengjuna.


Í tilkynningu sinni hvöttu læknarnir almenning til varfærni og árvekni vegna mikillar aukningar á læknatímum í gegnum fjarfundabúnað meðan á útgöngubanni stóð.

Sagði í tilkynningu að jafnvel þótt læknar fögnuðu því að geta átt samskipti við skjólstæðinga sína í gegnum fjarfundabúnað væri fólk hvatt til að ganga úr skugga um að læknar hefðu tilskilin réttindi og fara varlega í að sýna viðkvæma líkamshluta í gegnum vefmyndavélar.

Sjötíu prósenta aukning

Breskir lýtalæknar fengu sjötíu prósentum fleiri beiðnir um fjarfundi við skjólstæðinga árið 2020. En rétt eins og kollegar þeirra í Bandaríkjunum tóku þeir bresku eftir því að heimsfaraldur hafði þau áhrif að almenningur fór að horfa meira í spegilmynd sína, ekki endilega með jákvæðri niðurstöðu fyrir sjálfsmyndina.

Bandalag breskra lýtalækna sérhæfðra í fegrunarlækningum, eða BAAPS, hefur meira að segja fundið hugtak yfir aukninguna og kalla hana The Zoom Boom, eða Zoom sprengjuna og gáfu síðasta sumar út tilkynningu til almennings varðandi læknafundi í gegnum vefmyndavél.

Í tilkynningu sinni hvöttu læknarnir almenning til varfærni og árvekni vegna mikillar aukningar í læknatímum í gegnum fjarfundabúnað á meðan á útgöngubanni stóð.

Sagði í tilkynningu að jafnvel þó læknar fagni því að geta átt samskipti við skjólstæðinga sína í gegnum fjarfundabúnað sé fólk hvatt til að ganga úr skugga um að hann hafi tilskilin réttindi og fara varlega í að sýna viðkvæma líkamshluta í gegnum vefmyndavélar.

Merki um Zoom dysmorphiu

  • Kvíði fyrir fjarfundum þar sem myndavélar eru notaðar
  • Mikil áhersla á að líta vel út fyrir fjarfundi
  • Rýna í hvernig þú birtist á skjánum og leita að göllum
  • Trúa því að aðrir séu að rýna í téða galla

Fólk sem vinnur heima tekur eftir fleiru

Þórdís Kjartansdóttir, lýtalæknir hjá Dea Medica, segist aðspurð ekki hafa orðið vör við Zoom dysmorphiu þó að hún kannist við kenningar um að fjölgun Zoom-funda skýri auknar heimsóknir til stéttarinnar.

Þórdís Kjartansdóttir lýtalæknir segir mikilvægt að læknar séu á varðbergi gagnvart brenglaðri sjálfsmynd ungs fólks. Fréttablaðið/anton brink

„Ég hef ekki heyrt um eða orðið vör við Zoom dysmorphiu sem gæti verið þýtt á íslensku sem Zoom-líkamsskynjunarröskun.

Líkamsskynjunarröskun eða BDD, Body dysmorphic disorder, er alvarlegt sálrænt vandamál eða stundum sjúkdómur sem við lýtalæknar reynum alltaf að greina og vísa áfram til sálfræðinga eða geðlækna.


„Líkamsskynjunarröskun eða BDD, Body dysmorphic disorder, er alvarlegt sálrænt vandamál eða stundum sjúkdómur sem við lýtalæknar reynum alltaf að greina og vísa áfram til sálfræðinga eða geðlækna."


Þessir Zoom-fundir eru aftur á móti taldir hluti af skýringu á aukningu á heimsóknum til okkar lýtalækna víða um heim, svokallað Zoom Boom. Fólk sem vinnur mikið heima á fjarfundum horfir á sig í tölvunni og tekur kannski meira eftir hrukkum og augnpokum.

Svo eru kannski líka einhverjir sem hafa látið sig dreyma um að gera eitthvað lengi en ekki gefið sér tíma. Svo vegna heimsfaraldursins höfðu þeir svigrúm til þess. Fólk hefur notað tækifærið og drifið sig í aðgerð,“ útskýrir Þórdís.

Er aukin óánægja með útlit með aukningu samfélagsmiðla og nú fjarfunda á Covid-tímum eitthvað sem er í umræðunni hjá íslenskum læknum?

„Við lýtalæknar reynum að þekkja fólk með BDD úr skjólstæðingum okkar og vísa því til réttra aðila. Félag okkar lýtalækna á Íslandi skipulagði árið 2019 fræðslufund þar sem sálfræðingur hélt fyrirlestur um BDD. Við þurfum annars að vera vakandi fyrir því að hafa væntingarnar raunhæfar og hjálpa skjólstæðingum okkar að fara ekki yfir strikið.“


Brengluð sjálfsmynd ungs fólks

Aðspurð hvort hún kannist við að fólk geri óraunhæfar kröfur til útlits í tengslum við filtera á samfélagsmiðlum svarar Þórdís því neitandi. Spurð hvort fólk eigi það til að mæta með breyttar myndir af sjálfu sér og óska eftir að líkjast frekar þeirri mynd svarar Þórdís:

„Fólk kemur stundum með gamlar myndir af sér áður en aldursbreytingar komu og vill líkjast þeirri mynd en ekki breyttar myndir.“

Er þetta þróun sem við ættum að hafa áhyggjur af?

„Þetta er erfið spurning sem hefur á sér margar hliðar, en nei, ég hef ekki orðið vör við það í mínum kúnnahóp. Við þurfum að vera á varðbergi gagnvart brenglaðri sjálfsmynd ungs fólks og við lýtalæknar gegnum stundum stóru hlutverki þar. Almennt ættum við fullorðnu að hjálpa unga fólkinu okkar að fá bættari sjálfsmynd og ekki að reyna að líkjast myndum á samfélagsmiðlum,“ segir Þórdís að lokum.

Líkamsskynjunarröskun er geðröskun sem einkennist af áleitnum hugsunum um útlitsgalla sem er þó ekki til staðar. Fréttablaðið/Getty

Hvað er líkamsskynjunarröskun – BDD?

Líkamsskynjunarröskun er geðröskun sem einkennist af áleitnum hugsunum um útlitsgalla sem er þó ekki til staðar.

Röskunin kemur að jafnaði fram á unglingsárum og er kynjahlutfall nokkuð jafnt. Þeir sem þjást af röskuninni eyða oft mörgum tímum á dag í að hugsa um útlit sitt og fylgir hugsununum yfirleitt áráttukennd hegðun, svo sem að líta endurtekið í spegil eða bera útlit sitt saman við útlit annarra.

Vegið algengi röskunarinnar í almennu þýði er um 2% en er talsvert hærra í klínísku samhengi og á stofum húð- og lýtalækna. Hún hefur oft alvarlegar afleiðingar í för með sér, eins og mikla vanvirkni, skert lífsgæði, þunglyndi og mikla sjálfsvígshættu.

Lítið er vitað um orsakir röskunarinnar og hvaða þættir spá fyrir um framvindu hennar. Hugræn atferlismeðferð og SRI-lyfjameðferð skila mestum árangri, en ljóst er að fegrunaraðgerðir skila litlu og geta verið skaðlegar fyrir þessa skjólstæðinga.

Úr fræðigreininni, Líkamsskynjunarröskun – Helstu einkenni, algengi, greining og meðferð eftir Hrefnu Harðardóttur lýðheilsufræðing, Örnu Hauksdóttur faraldursfræðing og Andra Steinþór Björnsson sálfræðing. Birtis í Læknablaðinu árið 2019.

Eins og að horfa í spegil marga tíma á dag

Ásmundur Gunnarsson sálfræðingur og sérfræðingur í klínískri sálfræði hjá Kvíðameðferðarstöðinni hefur töluvert unnið með líkamsskynjunarröskun eða body dysmorphic disorder. Hann er ekki hissa á að stanslaus berskjöldun í myndavélinni hafi áhrif á sjálfsmynd fólks.

Ásmundur Gunnarsson sálfræðingur segir sjálfsmiðaða athyglina auka hættu á ósanngjörnum kröfum. Fréttablaðið/anton brink

Aðspurður segist Ásmundur ekki hafa heyrt um „Zoom dysmorphia.

„Þarna er í raun verið að tala um kvíðavandamál sem nefnist líkamsskynjunarröskun eða body dysmorphic disorder, sem er best lýst sem óhóflegum áhyggjum yfir ímynduðum eða litlum útlitsgalla sem herja á á fólk í marga klukkutíma á dag og geta orðið að einskonar þráhyggju.

Þessi þráhyggja getur snúið að öllu mögulegu, líkamslögun, húð, nef, hári og svo mætti endalaust telja, og reynir alltaf að sannfæra fólk um það sama: að það líti hræðilega út. Þessu ástandi fylgir eðlilega mikill kvíði en ekki síður skömm.

Fólk byrjar oft að verja miklum tíma í að reyna að laga það sem það er ósátt með. Það reynir að fela það eða forðast aðstæður þar sem bera myndi á því. Spegillinn verður versti óvinur fólks og festist það tímunum saman í að einblína á og grandskoða með leiserfókus það sem það er óánægt með, eða byrjar að forðast spegla alfarið.“

Fólk útsettara fyrir útlitsáhyggjum

Ásmundur segir hugtakið „zoom dysmorphia“ skírskotun í upplifun margra sérfræðinga að með tilkomu fjarfunda og aukinnar notkunnar myndavéla á tímum covid sé fólk útsettara fyrir ofangreindum áhyggjum. „Þetta er dálítið svipað og að standa fyrir framan spegilinn sinn í marga klukkutíma á dag,“ segir hann.

„Hjá hversu mörgum þetta byrjar að trufla þeirra daglega líf og veldur þeim mikilli vanlíðan er erfitt að segja, en líklegt að þetta trufli frekar þá sem eru nú þegar ósáttir með útlit sitt. Stanslaus berskjöldun í myndavélinni gerir svo hlutina verri þegar þessi hópur byrjar að fókusa meira á myndina af sjálfum sér frekar en aðra og verja miklum tíma í að rífa sig niður, bera sig saman við aðra og/eða laga útlitið sitt á einhvern hátt.“

Áhersla á útlit gríðarleg

Ásmundur bendir á að áherslur á útlit í nútímasamfélagi séu auðvitað gríðarlegar. „Alls staðar sjáum við fólk sem lítur „fullkomlega“ út. Í þáttum, bíómyndum, tímaritum og - kannski hvað mest - á samfélagsmiðlum.“

Stanslaus skilaboð dynja á fólk um að gott útlit endurspegli hamingju, velgengni og aðdáun.

„Skilaboð sem oftast bera þann undirliggjandi tón að við lítum aldrei nógu vel út og að við þurfum að gera eitthvað í því, en umfram það - að virði okkar, sátt og samþykki sé háð útliti okkar. Það er því kannski ekki skrítið að fólk sé minna sátt með útlit sitt á þeim tímum sem við lifum í dag.

Nýleg rannsókn í Bretlandi benti til að mynda til þess að 1 af hverjum þremur unglingum og fimm fullorðnum skammast sín fyrir útlit sitt."


„Nýleg rannsókn í Bretlandi benti til að mynda til þess að 1 af hverjum þremur unglingum og fimm fullorðnum skammast sín fyrir útlit sitt."


Það hefur líka verið umræða á milli sálfræðinga og lýtalækna og eru lýtalæknar nú byrjaðir að skima meira fyrir þessum vanda. En erlend rannsókn frá 2016 gaf til kynna að um 80 prósent lýtalækna vissu ekki að þeir voru að framkvæma aðgerðir á fólki með BDD.“

Ekki aukning í leit að aðstoð

Þrátt fyrir þetta segir Ásmundur sálfræðinga ekki finna fyrir því að fólk sæki sér í auknum mæli aðstoð við þessum vanda sem þó mögulega sé að verða algengari.

„Það geta verið alls kyns ástæður fyrir því, meðal annars sú að fólk skammast sín fyrir að hafa þessar áhyggjur og ber þær í hljóði. Sömuleiðis getur verið að fólk sjái þetta ekki endilega sem andlegt vandamál heldur útlitslegt. Það leitar því frekar til húð- eða lýtalækna, sem er oft ekki sú þjónusta sem mun skila þeim betri líðan,“ segir Ásmundur.

Aðspurður telur Ásmundur líklegt að samfélagsmiðlafilterar hafi mótandi áhrif á upplifun fólks á útliti sínu.

„Nú getur fólk ekki aðeins borið sig saman við aðra heldur líka við við hinu „fullkomnu“ mynd af sjálfum sér. Hvort sem það er gert með því að nota filtera eða taka fimmtíu sjálfur til að ná réttu myndinni. Þetta getur ekki annað en mótað óraunhæfa og skakka líkamsímynd og ruglað smá í okkar hugmyndum um eðlilegt útlit. Jafnvel þó við séum á yfirborðinu meðvituð um að þetta sé allt í plati.“

Mötuð af óraunhæfum stöðlum

Ásmundur bendir á að heili okkar sé sífellt mataður af óraunhæfum útlitsstöðlum.

„Útlitið skiptir öllu máli. Allar hrukkur, fellingar, bólur og önnur ummerki þess að ég sé í eðli mínu ófullkomin manneskja skulu víkja - þá má ég vera hamingjusamur, sáttur og sýna mig.

En til lengri tíma, sérstaklega ef fólk er óöruggt fyrir og lifir og hrærist í heimi samfélagsmiðla, leiða þessar kröfur líklega til þess að það skapast meira ósamræmi á milli þess hvað það sér og hvað það vill sjá.

Og í hvert sinn sem það lítur í spegil og horfist í augu við raunveruleikann verður það fyrir sífellt meiri vonbrigðum. Rannsóknir virðast styðja þetta og benda til þess að þeir sem verja meiri tíma í að laga myndir af af sér, tjá meiri óánægju með útlit og neikvæðari líkamsímynd.“

Er þetta eitthvað sem gæti átt þátt í þróa BDD hjá viðkvæmum hópum?

„Já, líklega. Fólk sem er óöruggt með útlit sitt er oft líklegra en aðrir til að nálgast samfélagsmiðla á hátt sem virðist næra enn frekara óöryggi og áhyggjur. Þessi hópur er til að mynda líklegri til að byrja að einblína meira á og rýna í það sem það er ósátt með í eigin útliti, hvort sem það er á fjarfundinum, Instagram eða í speglinum, og byrjar þar með að taka meira eftir og hugsa meira um það er ósátt með,“ segir Ásmundur og bendir blaðamanni á að prófa að standa nálægt spegli og stara á eitthvað sem hún sé ósátt við í fimm mínútur og skoða hvaða áhrrif það hafi.


„Fólk sem er óöruggt með útlit sitt er oft líklegra en aðrir til að nálgast samfélagsmiðla á hátt sem virðist næra enn frekara óöryggi og áhyggjur."


„Til lengri tíma eykur þessi sjálfmiðaða athygli líka hættuna á því að fólk byrji að sjá sig á annan, oft ósanngjarnari hátt. Líkamsímyndin breytist til hins verra.

Allur samanburðurinn, sjálfurnar og filterarnir, auk annarra leiða sem fólk fer oft í þessum efnum eins og að fela útlit sitt, laga það eða forðast aðstæður virðist sömuleiðis næra þá hugmynd að útlit skipti öllu máli og gera mann enn ósáttari með sjálfan sig. Fólk festist með öðrum orðum í vítahring og þegar þessi vítahringur byrjar að hafa mikil áhrif á vinnu, nám eða daglegt líf fólks köllum við hann BDD.“

Aðspurður segir Ásmundur fulla ástæðu til að hafa áhyggjur af þessari þróun en þó sé margt hægt að gera til að sporna gegn henni og þar sé fræðslan fremst.

„Í fyrsta lagi fræðslu á samfélagslegu leveli, að ungu kynslóðirnar öðlist sem mestu innsýn í það hversu miklar og óraunhæfar kröfurnar um það hvernig við eigum að líta út eru orðnar.

Sömuleiðis er mikilvægt að fólk viti af því að þegar áhyggjur verða að vandamáli sem truflar í daglegu lífi er mikilvægt að tala um það, því þessi vandamál þrífast í skömminni. Það er fyrsta skrefið í að leita sér hjálpar við vandamáli sem hefur nafn (BDD) og er til árangursrík sálfræðimeðferð við sem það getur leitað sér aðstoðar með hjá viðeigandi sérfræðingi,“ segir hann að lokum.

Athugasemdir