Eins og fram kom í Tilveruumfjöllun Fréttablaðsins síðasta fimmtudag er markviss kennsla í félags- og tilfinningafærni áberandi minnst í framhaldsskólum. Þetta kom fram í landskönnun á geðrækt í skólum, sem Embætti landlæknis gerði. Þar kemur enn fremur fram að framhaldsskólar standi bæði leik- og grunnskólum að baki þegar kemur að gagnasöfnun um líðan og hagi nemenda. 70% framhaldsskóla leggja fyrir árlegar nemendakannanir til að meta líðan og skólabrag á móti yfir 90% grunnskóla.

Kannanirnar virðast vera vannýttar í framhaldsskólum en rétt um einn af hverjum tíu gerir slíkar kannanir og bregst við með stuðningi ef merki eru um félagslega einangrun eða útilokun meðal nemenda.

Í ljósi þess að margir framhaldsskólar eru með fjölbrautakerfi þar sem nemendur eru með ólíkum hópum í hverju fagi og auðvelt er að „týnast“ í fjölmennum skólum væri gagnlegt að nýta tengslakannanir betur á þessu skólastigi. Þær veita tækifæri til að fá yfirsýn yfir þann hluta nemenda sem hefur veik tengsl við samnemendur eða starfsfólk í skólanum.