Banda­rísk yfir­völd vinna nú með yfir­mönnum Coloni­al olíu­leiðslunnar við að tryggja leiðsluna en Coloni­al-leiðslan varð fyrir tölvu­á­rás í síðustu viku og lokaði í kjöl­farið. Um var að ræða net­á­rás með svo­kölluðu gagnagísla­töku­for­rit (e. ran­somware) en árásin var ein umfangsmesta árás á innviði Bandaríkjanna.

Að því er kemur fram í frétt Reu­ters er talið að glæpa­hópurinn DarkS­i­de hafi verið að verki. CNN hefur það eftir hátt settum em­bættis­manni í net­málum að DarkS­i­de hópurinn komi upp­runa­lega frá Rúss­landi og ráðist vana­lega á lönd þar sem rúss­neska er ekki töluð.

Coloni­al-leiðslan sér um tæplega helming alls elds­neytis­flutnings á austur­ströndinni en lokunin hefur haft mikil á­hrif þar og hefur við­miðunar­verð á elds­neyti til að mynda ekki verið hærra á austur­ströndinni í þrjú ár og er óttast að verð á elds­neyti muni hækka enn frekar. Alls eru um 2,5 milljón tunnur af elds­neyti fluttar í gegnum leiðsluna á hverjum degi.

Tæplega helmingur af öllum eldsneytisflutningi á austurströndinni fer í gegnum Colonial-leiðsluna.
Mynd/CNN

Óljóst hvenær leiðslan opnar aftur

Opnað var fyrir hluta leiðslunnar í gær en ó­ljóst er hve­nær leiðslan í heild sinni, sem er um 8.850 kíló­metrar að lengd, opnar aftur. Sam­göngu­ráðu­neyti Banda­ríkjanna greip í gær til neyðar­ráð­stafana vegna málsins til að auð­velda flutning á elds­neyti og er mögu­legt að gripið verði til frekari að­gerða ef lokunin varir mikið lengur.

Hvíta húsið hefur til­kynnt að opnun leiðslunnar sé í al­gjörum for­gangi og munu fylgjast vel með stöðu mála til að koma í veg fyrir frekari truflanir. Coloni­al greindi frá því í gær að opnað verði fyrir leiðslurnar um leið og það telst öruggt.