Heildarverðmat fasteigna á Íslandi hækkar um næstum 20 prósent og verður 12.627 milljarðar á næsta ári.

Þetta er niðurstaða nýs fasteignamats Þjóðskrár fyrir árið 2023. Þetta er næstum þreföld hækkun frá því sem var á síðasta ári, þegar fasteignamat á landinu öllu hækkaði um 7,4 prósent.

Á höfuðborgarsvæðinu hækkar matið um 20,2 prósent en um 19,2 prósent á landsbyggðinni.

Mest er hækkunin á Suðurlandi, 22,4 prósent, 19,3 prósent á Vestfjörðum, 18,8 prósent á Suðurnesjum og Norðurlandi eystra. Hækkunin á Vesturlandi er 18,1 prósent, 15,2 á Norðurlandi vestra og 14,9 á Austfjörðum.

Af einstökum sveitarfélögum hækkar fasteignamat mest í Hveragerðisbæ, um 32,3 prósent, og Árborg kemur á hæla hans með 32,1 prósents hækkun.

Minnst er hækkunin í Dalvíkurbyggð, 8,1 prósent, og í Dalabyggð og Skútustaðahreppi, 9,3 prósent.

Sérbýli hækkar meira en fjölbýli, eða um 25,4 prósent á móti 21,6 prósent.

Atvinnuhúsnæði hækkar um 10,2 prósent og sumarhús um 20,3 prósent.

Að óbreyttu getur þessi mikla hækkun fasteignamats leitt til verulegs útgjaldaauka almennings og fyrirtækja á næsta ári vegna þess að fasteignamatið er gjaldstofn fasteignagjalda sem geta því hækkað um tugi prósenta.

Fréttablaðið hafði samband við forystufólk í nokkrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu til að grafast fyrir um hvort áform væru af hálfu sveitarfélaganna um að bregðast við þessari miklu hækkun fasteignamatsins með lækkun fasteignagjalda.

Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, segir að komið verði til móts við íbúa bæjarins með lækkun fasteignagjalda, eins og gert hafi verið undanfarin ár til að vega upp á móti miklum hækkunum fasteignamats. Segir Rósa sérstaklega kveðið á um þetta í nýjum málefnasamningi meirihlutans í bæjarstjórn Hafnarfjarðar, sem skrifað var undir í gær.

Almar Guðmundsson, verðandi bæjarstjóri Garðabæjar, segir að fasteignagjöld verði lækkuð líkt og gert hafi verið undanfarin ár þegar gjaldstofninn hefur hækkað.

Sama máli gegnir um Þór Sigurgeirsson, verðandi bæjarstjóra Seltjarnarness. Hann segir Sjálfstæðismenn á Nesinu ætla að standa við stóru loforðin sem þeir gáfu í kosningabaráttunni. Fyrsti punktur í stefnuskrá flokksins fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í síðasta mánuði hafi verið að lækka gjöld og álögur á bæjarbúa. Fasteignagjöld í bænum verði ekki hækkuð umfram almennar verðlagshækkanir.

Ásdís Kristjánsdóttir, verðandi bæjarstjóri í Kópavogi, segir kveðið á um það í nýjum málefnasamningi meirihlutans að álögur á heimili og fyrirtæki í bænum verði ekki hækkuð og að tryggt verði að þrátt fyrir hækkun fasteignamatsins hækki fasteignaskattur ekki að raungildi umfram almennar verðlagsbreytingar.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir að þessi mál séu meðal þess sem rætt er um í viðræðum um nýjan meirihluta í Reykjavík. Hann segir mikilvægt að horfa á gjaldtöku sveitarfélaga í samhengi, þar komi fleira til, á borð við sorphirðugjöld, leikskólagjöld og fleira. Reykjavíkurborg komi mjög vel út úr slíkum samanburði. Dagur segir Þjóðskrá yfirleitt hafa birt ítarlegri forsendur fyrir fasteignamatinu en nú og kallað hafi verið eftir frekari upplýsingum sem verði að liggja fyrir áður en gengið verði frá fjárhagsáætlun í haust.