Íslandsstofa kom að markhópagreiningu í Kína á síðasta ári í samstarfi við hin Norðurlöndin. Að sögn Daða Guðjónssonar, verkefnisstjóra viðskiptaþróunar, var markmiðið að kanna tækifærin og sjá sameiginlega hagsmuni sem nýta mætti í markaðsrannsókn. Hvernig hægt væri að fjölga kínverskum ferðamönnum með sjálfbærum hætti, auka dreifingu þeirra og minnka árstíðasveiflu. Samkvæmt rannsókninni kom fram að áætlaður fjöldi gistinátta Kínverja myndi aukast úr 1,7 milljónum árið 2017 í 3,42 milljónir árið 2022 á öllum Norðurlöndum. Sem sagt tvöfaldast á aðeins fimm árum. En undanfarin ár hefur hlutdeild Kínverja verið nokkuð stöðug.

„Í rannsókninni kemur fram að Ísland þyki eftirsóknarverður áfangastaður hjá kínverskum „HiSpFITs“ ferðamönnum (High Spending Free Individual Travellers) bæði að sumri og vetri,“ segir Daði.

Unnið er að langtímastefnu stjórnvalda og atvinnulífs fyrir íslenskan útflutning, þar sem haldnar hafa verið 13 vinnustofur og 300 manns komið að. Nefna fyrirtæki í ferðaþjónustu Kína sérstaklega sem land þar sem vaxtartækifærin eru mikil.

Kínversk fyrirtæki horfa í sífellt meiri mæli til Íslands í tengslum við ferðamennsku. Nefna má að nýlega keypti Vincent Tan í Icelandair Hotels og þá hefur flugfélagið Tianjin Airlines í hyggju að fljúga til Íslands.

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir að ferðaþjónustufyrirtæki horfi til menn­ingarmunarins á milli Kína og vestrænna ríkja. Kínverjar eru til dæmis vanir því að borga með greiðslulausnum í síma, svo sem Alipay og WeChat. Þá eru þeir vanir að fá litlar gjafir með því sem þeir kaupa, til þess að gefa stórfjölskyldunni heima. Einnig kjósa þeir sjálfsafgreiðslu á hótelum í meiri mæli en til dæmis Bandaríkjamenn sem vilja persónulegri þjónustu.

Eitt helsta vandamálið að mati Jóhannesar, hvað varðar fjölgun kínverskra ferðamanna, er skortur á leiðsögumönnum sem eru mælandi á kínversku.

„Því miður er enn of mikið um að kínverskir hópar séu að koma hingað með leiðsögumenn sem eru ekki skráðir og í rauninni að brjóta reglur. Einnig að bílar séu leigðir og keyrt sé um með hópa án tilskilinna leyfa,“ segir hann.

Þá hafa kínverskir ferðamenn lent í fjölmörgum alvarlegum slysum á undanförnum árum. Með samstilltu átaki og upplýsingagjöf horfi þau mál nú til betri vegar. Jóhannes bendir á að of lítið sé af gjörgæslurýmum á íslenskum sjúkrastofnunum til að takast á við slys, sem því miður hafi gjarnan verið í þessum hópi. „Okkur er ekkert að vanbúnaði að takast á við fjölgun þessa hóps, rétt eins og annarra, en við verðum þá að horfa heildrænt á stöðuna og byggja upp innviðina í samræmi við það.“