Tekin verður upp gangbrautarvarsla við gatnamót Hringbrautar og Meistaravalla í kjölfar þess að í gærmorgun var ekið á barn á umræddri gangbraut.

Slysið vakti hörð viðbrögð á samfélagsmiðlum og kröfðust margir foreldrar barna í Vesturbæjarskóla þess að gripið yrði til aðgerða. Þá lýstu margir slæmri reynslu af öryggi gangandi vegfarenda á fleiri köflum Hringbrautar. Þá höfðu foreldrar boðað eigið eftirlit við gangbrautir næst skólanum.

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulags- og samgönguráðs, segir að Hringbrautin sé stofnvegur og því í umsjón Vegagerðarinnar en hún hefur talað fyrir því að hámarkshraði þar verði lækkaður.

„Ég bind vonir við það að allir aðilar geri sér grein fyrir alvarleika málsins og þessu mikla ákalli sem er komið um lækkun hámarkshraða. Þess vegna hef ég boðað þessa aðila á fund í næstu viku,“ segir Sigurborg. Á fundinn eru boðaðir fulltrúar lögreglu, Vegagerðarinnar, Samgöngustofu og íbúasamtaka hverfisins.

Sigurborg segir rannsóknir um allan heim sýna fram á að þrír þættir hafi fyrst og fremst áhrif til að draga úr slysahættu. „Hraðinn er númer eitt, tvö og þrjú en sýnileiki vegfarenda og lýsing hafa líka áhrif.“

Þessir þættir verði til umfjöllunar í væntanlegri umferðaröryggisáætlun fyrir hverfi borgarinnar.