Móðurhjarta fjölmiðlakonunnar Nínu Richter sló ört í dag þegar hún fékk símtal frá barnapíunni sinni um að tveggja ára sonur hennar væri læstur inni í íbúð hennar á Holtsgötu. Nína var við vinnu þegar símtalið barst og voru góð ráð því dýr.

„Ég var nýbúin að setjast niður til að skrifa frétt og var búin að panta mér mat á veitingastað. Þá fæ ég símtalið frá henni þar sem hún segir mér að ég þurfi að koma að bjarga sér,“ segir Nína í samtali við Fréttablaðið. Barnapían hafði þá fyrir slysni læst sig fyrir utan íbúðina á meðan Helgi, sonur hennar, var inni.

Prílaði upp stiga og braut sér leið inn með hamri

„Ég rýk því bara af stað, hendi frá mér matnum og fæ að geyma tölvuna mína til að vera létt á fæti þegar ég hleyp,“ en Nína var þá stödd í miðbænum, þar sem hún skrifaði fréttir fyrir vef Ríkisútvarpsins um Menningarnótt og viðburði hennar. Erfitt hafi verið að panta leigubíl í ljósi allra umferðarhindrananna og því fljótlegra að hlaupa.

Þegar hún kom að íbúðinni áttaði sig hún á því að hún hafði gleymt húslyklunum í tölvutöskunni sem varð eftir á veitingastaðnum. Fyrstu viðbrögð hennar voru því að hringja í lögreglu þar sem hún biðlaði til þeirra að brjóta upp hurðina á íbúðinni.

„Þar fæ ég þau svör að þeir geri það ekki. Þeir bentu mér á að hringja í lásasmið eða reyna hreinlega að brjóta mér leið inn sjálf,“ segir Nína. 

„Ég var orðin uppfull af adrenalíni og þetta er svo primal þegar börnin manns eru í hættu að maður verður einhvern veginn að taka af skarið.“

Mömmuhjartað kramið

Því hafi hún leitað sér að stiga, fengið lánaðan hamar hjá nágrannakonu sinn, prílað upp stigann og brotið upp gluggann til að komast inn í íbúðina, sem er á annarri hæð, til sonar síns. Ekkert amaði að Helga litla, en Nína segir hann eflaust ekki hafa gert sér grein fyrir því að hann hafi verið einn í íbúðinni.

„Það var aðallega mömmuhjartað sem var alveg kramið,“ segir hún og ítrekar að ekki sé hægt að kenna barnapíunni eða ábyrgðarleysi um hvernig fór. Allt hafi að lokum endað vel og ef til vill hafi sonurinn ekki verið í neinni hættu. Hins vegar hafi ekki verið hægt að taka áhættuna á frekari bið og því hafi hún brotið sér leið inn í íbúðina.