Þorgrímur Þráinsson, sem smitaðist af Covid-19 og setti 12 starfsmenn KSÍ í sóttkví, var hvorki á leikskýrslu gegn Rúmenum né Dönum. Samkvæmt reglum UEFA og íslenskum reglum sem KSÍ vinnur eftir er starfsmönnum landsliðsins og leikmönnum ekki heimilt að knúsast og faðmast eftir leiki.

Þó það sé ekki minnst á það berum orðum í reglugerð UEFA þá stendur að starfsmenn sem eru ekki á skýrslu eigi ekki að fara inn á völlinn. Þorgrímur þverbraut því reglur UEFA, sem er forsenda þess að fótboltinn fór aftur af stað, með því að arka inn á völlinn og knúsa þar leikmann og annan - grímulaust.

Samkvæmt reglum UEFA, sem kallast UEFA Return to Play Protocol v2, á að hafa algjöran aðskilnað milli leikmanna og starfsmanna, hvort sem það er í matmálstímum eða ferðalögum til og frá æfingum og ýmislegt fleira.

Í gleðinni eftir Rúmeníuleikinn fuku þó allar reglur út um gluggann og örkuðu Þorgrímur og Magnús Gylfason, formaður landsliðsnefndarinnar, inn á völlinn til að samgleðjast landsliðinu. Magnús var þó með grímu eins og sést á myndinni en hann stendur fyrir aftan þá Þorgrím og fyrirliðans Aron Gunnarssonar sem eru við það að fallast í faðmlag. Yfirvöld ráða því hverjir fara í sóttkví en tólf starfsmenn KSÍ þurftu að fara í sóttkví.

Klara Bjartmarz, framkvæmdarstjóri KSÍ, segir að á skýrslu mega vera 11 starfsmenn sem landsliðið fullnýti. Þeir sitja við leikvanginn.
Fyrir utan þessa 11 eru síðan svæði sem kallast Technical additional seats sem er misjafnt hvað KSÍ nýtir en UEFA gefur leyfi fyrir 45 manns. Þar geta til dæmis verið auka sjúkraþjálfarar, öryggisstjóri, tengiliður fyrir fjölmiðla, einstaka sinnum kokkur og svo framvegis.

"Í sóttkví fóru allir þeir sem voru á skýrslu, plús sá starfsmaður sem er sér um tækniupptökur og leikgreiningarvinnslu. Hann er upp í rjáfri í leiknum en er ekki á skýrslu," segir Klara. Hún var ekki með það á hreinu hvort það væru aðrar skyldur á þá sem væru á skýrslu eða ekki.

KSÍ þurfti að hafa snör handtök vegna smitsins og skipa nýtt starfslið en Arnar Þór Viðarsson, stýrði íslenska landsliðinu í gær ásamt Davíð Snorra Jónassyni. Þrátt fyrir að vera í sóttkví máttu Eric Hamrén, landsliðsþjálfari, og Freyr Alexandersson, aðstoðarlandsliðsþjálfari, yfirgefa hana og horfa á leikinn úr glerbúri, efst í stúkunni á Laugardalsvelli. Arnar kom frá Lúxemborg í gær en þurfti ekki að fara í sóttkví, heldur fór hann í svokallaða vinnusóttkví og mátti því vera á Laugardalsvelli sem er svokallað skilgreint svæði. Belgíski hópurinn, dómararnir og eftirlitsmenn UEFA voru með sömu skilgreiningu.