Ólafur Björn Ólafsson, forsvarsmaður Facebook síðunnar Bílainnflutningur frá Evrópu, braut lög um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu og neytendakaup með því að auglýsa nýja og óskráða Toyota Land Cruiser bíla með fimm ára verksmiðjuábyrgð til sölu á Facebook.

Neytendastofa hefur birt úrskurðinn en það var Toyota á Íslandi hf sem kvartaði til stofnunarinnar vegna viðskiptahátta Ólafs Bjarnar þann 13. september 2019.

Í bréfinu sem barst Neytendastofu segir að Toyota á Íslandi sé innflytjandi Toyota bifreiða og að frá árinu 2010 hafi félagið, fyrst íslenskra bifreiðafyrirtækja, boðið 5 ára ábyrgð á öllum bílum sínum. Frá áramótunum 2018/2019 hafi félagið ákveðið að auka við ábyrgðartímann og bjóði nú 7 ára ábyrgð á seldum nýjum bílum. Verksmiðjuábyrgð Toyota gildi í 3 ár.

Í bréfinu segir að Toyota á Íslandi hafi orðið þess vart að á Facebook væru auglýstar til sölu nýjar og óskráðar Toyota Land Cruiser bifreiðar með 5 ára verksmiðjuábyrgð. Verksmiðjuábyrgð Toyota gildi aðeins í þrjú ár en ekki fimm en þó sé hugsanlegt að ofangreindur söluaðili hafi keypt einhverskonar viðbótarábyrgð sem fylgi bifreiðunum, en slík ábyrgð sé ekki verksmiðjuábyrgð. Framangreint sé því verulega villandi og blekkjandi orðalag.

Í svörum Ólafs Bjarnar hefur komið fram að hann hafi verið í góðri trú um að þær bifreiðar sem hann hafi auglýst til sölu og selt viðskiptavinum sínum hafi borið 5 ára verksmiðjuábyrgð. Þegar honum hafi orðið ljóst að verksmiðjuábyrgðin sé einungis 3 ár, hafi hann breytt auglýsingum sínum og tekið út vísun í 5 ára verksmiðjuábyrgð.

Bílarnir tæknilega séð ekki nýir

Toyota segir að bílarnir sem Ólafur Björn seldi væru ekki nýir heldur hafi þeir verið skráðir erlendis áður en þeir voru fluttir til Íslands og séu því í þeim skilningi notaðir, „þó ekki sé endilega búið að aka þeim, enda hafi allir tímafrestir er tengist hverri bifreið, svo sem er lýtur að ábyrgð og afskriftum, byrjað að líða við skráningu hennar.“

Vegna þess að verksmiðjuábyrgð bíla gildir frá skráningu er ekki hægt að halda því fram að verksmiðjuábyrgð gildi frá því að bíllinn er skráður á Íslandi.

„Þetta geri það að verkum að hluti verksmiðjuábyrgðartímans sem gefinn sé upp í auglýsingunni (sem ætti að vera 3 ár en ekki 5 ár) sé þá þegar liðinn þegar bifreiðin kemur hingað til lands.“

Fór Toyota á Íslandi fram á að Ólafi Birni yrði bannað að auglýsa bifreiðar til sölu á þann hátt sem rakið var í bréfinu, hvort sem það sé gert á Facebook síðu undir nafninu Bílainnflutningur frá Evrópu eða með öðrum hætti. Neytendastofa féllst á það.

Ólafur Björn mótmælir að bifreiðarnar séu ekki nýjar þegar þær eru skráðar hér á landi þrátt fyrir að hafa áður verið skráðar í Belgíu enda hafi bifreiðarnar ekki farið á skráningarnúmer í Belgíu.

Í niðurstöðu Neytendastofnunar kemur fram að Ólafur Björn hafi ekki getað fært sönnur á að fullyrðingar í auglýsingum hans væru sannar og viðurkennt að hluta að þær hafi verið byggðar á röngum upplýsingum. Þá telur Neytendastofa að upplýsingarnar sem komu fram í umræddum auglýsingum væru líklegar til að valda því að hinn almenni neytandi sem auglýsingarnar beindust að, taki viðskiptaákvörðun sem hann myndi ekki annars hafa tekið og séu því villandi. Þá eru upplýsingarnar líklegar til að raska verulega fjárhagslegri hegðun neytenda.