Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk tilkynningu um þjófnað á veitingastað í miðbænum laust fyrir klukkan sjö í gærkvöldi, en maður er sagður hafa brotist inn á lager á staðnum og stolið áfengisflöskum og bakpoka með dj-græjum. Við nánari skoðun á upptökum úr eftirlitsmyndavélum á staðnum voru borin kennsl á manninn og handtók lögregla hinn grunaða rétt fyrir klukkan fjögur í nótt. Maðurinn var í annarlegu ástandi þegar lögreglu bar að garði. Hann játaði verknaðinn og var færður í fangageymslu lögreglu, en málið er í rannsókn. Þetta kemur fram í dagbók lögreglu.
Þá var tilkynnt um eld í strætisvagni við Grensásveg á sjötta tímanum í gærdag. Er lögreglu bar að garði var búið að slökkva eldinn, sem var sagður hafa verið í sætum aftarlega í vagninum. Vitni á staðnum sagðist hafa sótt slökkvitæki á veitingastað nærri vettvangi og slökkt í eldinum. Að sögn lögreglu hafði ökumaður strætisvagnsins andað að sér reyk og var í miklu áfalli. Sá var fluttur samstundis til aðhlynningar á bráðamóttöku Landspítalans. Lögregla rannsakar nú málið, en grunur leikur á að um íkveikju hafi verið að ræða.
Lögregla hafði afskipti af manni í Hafnarfirði í gærkvöldi, en hann var grunaður um sölu fíkniefna. Lögregla handlagði ætluð fíkniefni sem og fjármagn sem maðurinn sagði vera ágóða fíkniefnasölu og er málið nú í rannsókn.
Þá hafði lögregla afskipti af manni sem var ofurölvi í miðborginni, en tilkynning barst rétt fyrir klukkan ellefu í gærkvöldi um mann á akbraut. Þegar lögregla mætti á vettvang neitaði maðurinn að fara af akbrautinni og neitaði að gefa upp bæði kennitölu og nafn. Hann var handtekinn og fluttur á lögreglustöð, þar sem hann að lokum gaf upp kennitölu. Hann var látinn laus, en hefur verið kærður fyrir brot á lögreglusamþykkt.