Karlmaður var dæmdur í 18 mánaða fangelsi fyrir húsbrot og nauðgun af Héraðsdómi Reykjavíkur í síðustu viku. Maðurinn hafði áður hlotið dóm fyrir tilraun til manndráps og gekkst undir viðurlagaákvörðun árið 2013 fyrir umferðarlagabrot.

Samkvæmt ákæru héraðssaksóknara braust maðurinn inn á heimili konu, nefnd A í dómnum, aðfaranótt föstudagsins 20. apríl 2018. Konan svaf þá á sófa í stofu íbúðarinnar og hafði hann við hana „önnur kynferðismök, án hennar samþykkis, þar sem A lá sofandi í sófa í stofu íbúðarinnar en ákærði klæddi A úr nærbuxum hennar, káfaði á og sleikti kynfæri hennar og notfærði sér að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum svefndrunga og áhrifa svefnlyfs.“

Í vitnisburði A fyrir dómi sagði hún manninn „í raun hafa verið fjölskyldu sína og sinn nánasta vin.“

Gerð var einkaréttarkrafa á hendur manninum um greiðslu þriggja milljón króna miskabóta. Hinn ákærði neitaði sök og verjandi mannsins krafðist sýknu og frávísun einkaréttarkröfu, til vara vægustu refsingar og lækkunar bótakröfu.

Vin­kona leitaði til lög­reglu

Vinkona konunnar leitaði til lögreglu föstudaginn 20. apríl 2018 þar sem hana grunaði að brotið hefði verið á konunni kynferðislega á heimili hennar. Konan vildi fyrst ekki ræða við lögreglu en sagði svo frá því að umrætt atvik hefði átt sér stað nóttina áður.

Hún fór yfir samskipti sín við hinn ákærða og greindi frá því að hann hefði verið afar ölvaður dagana á undan og hótað henni. Nóttina sem maðurinn braut á konunni hafi hún tekið inn svefnlyf um klukkan 23:30 og sofnað á sófanum. „Hún hefði síðan vaknað við að verið var að sleikja á henni kynfærin. Hún hefði ekki séð hver var þarna á ferð enda verið mjög svefndrukkin og sljó“, eins og segir í dómnum.

Er hún vaknaði hafi maðurinn staðið á fætur og hún þekkt hann. Hún hafi spurt hvers vegna hann væri í íbúðinni og hann svarað að hún hefði boðið sér inn, sem var ekki rétt að hennar sögn. Konan bað hann þrisvar sinnum að fara út en hann var afar ölvaður. Hún bauðst til að fylgja honum í íbúð hans sem hann þáði. „Lýsti A því er ákærði sagði henni er þau komu í íbúð hans að hann hefði viðhaft háttsemina sem lýst er í ákærunni og að hún hefði viljað það og hleypt honum inn til sín eins og segir í skýrslunni.“

Framburður ákærða ekki trúverðugur

Í dómsorði segir að framburður ákærða hafi verið „breytilegur og ótrúverðugur og verður hann ekki lagður til grundvallar niðurstöðunni.“ Framburður A hafi hins vegar verið efnislega á sama veg um málsatvik frá upphafi. Framburður hennar var metinn trúverðugur og unnt að leggja hann til grundvallar niðurstöðu dómsins.

Þar segir enn fremur að liðin séu meira en þrjú og hálft ár frá brotinu. Því var við ákvörðun refsingar horft að nokkru til tafanna en þar sem um væri að ræða alvarlegt brot þótti ekki fært að skilorðsbinda refsingu mannsins, hvorki að heild eða hluta.

Hann var dæmdur til greiðslu tveggja milljóna króna í miskabætur auk vaxta, auk greiðslu réttargæsluþóknunar, aksturskostnað réttargæslumanns A og sakarkostnaðar. Hann þarf sömuleiðis að greiða verjendum sínum málsvarnarlaun, um tvær og hálfa milljón króna.