Maður hlaut á dögunum sex mánaða fangelsisdóm, skilorðsbundin til tveggja ára, í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir brot er vörðuðu þjófnað og umferðarlagabrot, en hann var til að mynda ákærður fyrir að brjótast inn í íbúð og stela þaðan fjórum og hálfri milljón krónum, ásamt öðrum munum.

Auk þess var maðurinn bæði sýknaður og sakfelldur fyrir brot gegn valdstjórninni.

Rótaði í skúffum og skápum

Maðurinn játaði sök í ákærunni er varðaði þjófnaðinn, en honum var gefið að sök að hafa í janúar á síðasta ári brotist inn í íbúð í Mosfellsbæ, róta þar í skúffum og skápum, og stela fjórum og hálfri milljón króna í reiðufé og Canon Xs-myndavél ásamt myndavélalinsum.

Verðmæti myndavélabúnaðarins var ein og hálf til tvær milljónir króna, og því var heildarverðmæti alls þýfisins um það bil sex og hálf milljón.

Auk þess var hann ákærður fyrir að hafa í sama mánuði brotist inn í verslun í Kópavogi og stela þaðan svokölluðu enduro-hjóli af gerðinni Beta, ásamt mótorkross-fatnaði og hjálmi. En verðmæti munanna er óþekkt.

Sama ákæra varðaði umferðarlagabrot mannsins sem áttu sér stað árið 2020, en tvívegis ók hann undir áhrifum ávana- og fíkniefna og slævandi lyfja. Í annað skipti endaði hann á klessa aftan á aðra bifreið og aka af vettvangi.

Maðurinn var jafnframt ákærður og dæmdur fyrir brot gegn valdstjórninni, en atvikið átti sér stað á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi.
Fréttablaðið/Ernir

Ákærður fyrir að kýla og klóra lögreglumann

Í annari ákæru var manninum gefið að sök að hafa í maí árið 2020, á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi, veist að lögreglumanni sem var við skyldustörf. Hann á að hafa slegið lögregluþjóninn með hnefahöggi í hnakkann og klóraði hægra augnlok hans.

Afleiðingum þess er lýst á þann veg að lögreglumaðurinn hafi hlotið mar á augnloki og augnsvæði og yfirborðsáverka á höfði.

Samkvæmt frumskýrslu lögreglu og vitniðburði tveggja lögregluþjóna sem voru að gæta ákærða á bráðamóttökunni þar sem verið var að hlúa að honum, en hann hafði verið handtekinn fyrr um kvöldið við rannsókn líkamsárásarmáls.

Að sögn lögreglu var maðurinn ósamvinnuþýður, mjög ölvaður og var erfiður í samskiptum. Þegar búið var að hlúa að honum ætlaðu lögregluþjónarnir að

fylgja honum á  lögreglustöð, en hann á að hafa brugðist illa við og veitti mótþróa og náð að losa sig úr tökum lögreglunnar.

Þá á hann að hafa króað annan lögreglumanninn af og veist að honum líkt og lýst var í ákærunni. En að lokum var hann yfirbugaður og settur í handjárn. 

Maðurinn hlaut sex mánaða fangelsisdóm, skilorðsbundin til tveggja ára, í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Fréttablaðið/Ernir

Viðurkenndi að hafa verið erfiður en neitaði sök

Maðurinn neitaði sök en viðurkenndi að hafa verið ölvaður og ósamvinnuþýður við lögreglumennina í tengslum við blóðsýnatöku. Þá sagðist hann hafa verið með fúkyrði í garð lögreglunnar. Einnig hafi hann streist á móti valdbeitingu lögreglumannanna, en ekki ráðist á þá.

Þá dró hann í efa áverka lögreglumannsins og taldi líklegra líkindum fremur orðið til við það að lögreglumaðurinn ræki sig utan í eitthvað í tengslum við umrædd átök. Auk þess sagðist hann aldrei vera með langar neglur og því gæti hann ekki hafa klórað hann.

Á meðal sönnunargagna í málinu voru búkmyndavélaupptökur og samkvæmt þeim og öðrum vitnisburði, sem kom til að mynda frá hjúkrunarfræðingi sem var á vettvangi þótti sannað að maðurinn hefði slegið lögreglumanninn með hnefahöggi í hnakkann. Hann var þó sýknaður fyrir þann hluta ákærunnar er varðaði klórið.

Líkt og áður segir hlaut maðurinn sex mánaða fangelsisdóm, skilorðsbundin til tveggja ára. Þá var hann dæmdur til að greiða eiganda íbúðarinnar sem hann braust inn í 4.413.596 krónur. Auk þess þarf hann að greiða 1.070.000 króna sekt í ríkissjóð og 944.209 krónur í sakarkostnað.