Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning á þriðja tímanum í nótt vegna manns sem brotist hafði inn í bílskúr í Breiðholti. Sá sem tilkynnti símtalið hafði staðið manninn að verki og hugðist stöðva för hans.

Sá óprúttni brást ókvæða við, dró upp hníf og ógnaði tilkynnandanum. Sá fyrrnefndi flúði í kjölfar þess á vespu og hafði ekki fundist þegar lögregla sendi frá sér dagbók gærkvöldsins og næturinnar.

Þá voru þrír menn handteknir í Vesturbænum á áttunda tímanum í gærkvöldi grunaðir um líkamsárás og brot á vopnalögum. Mennirnir voru vistaðir í fangageymslu lögreglu.

Einnig handtók lögreglan mann í Kópavogi á þriðja tímanum en hann hafði þá gengið um og farið inn í ólæsta bíla. Var hann vistaður í fangageymslu vegna málsins.

Þá var nokkuð um akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna liðna nótt og í gærkvöldi.