Bókakostur þingflokks Miðflokksins er heldur rýr í roðinu og nóg pláss í hillum þingflokksherbergisins í alþingishúsinu. Fátt þar kemur á óvart ef frá er talinn hinn vinsæli doðrantur Man Walks Into A Bar 2, eða Maður gengur inn á bar 2, eftir Jonathan Swan.

Eins og titillinn bendir til er bókin samsafn fimmaurabrandara sem tengjast barferðum með ýmsu móti, fjalla um heimsóknir á barinn eða eru hentugir til þess að kasta fram á góðum stundum yfir öli. Óneitanlega nokkuð skondið í ljósi þess að sjálfsagt er hvorki Miðflokksfólki, né fólki almennt, hlátur í huga þegar barferðir þingmanna flokksins eru annars vegar.

Daníel Gauti Georgsson rak augun í bókina þegar hann notaði tækifærið á fullveldisdaginn til þess að skoða sig um í þinghúsinu. Hann segist í samtali við Fréttablaðið ekki hafa getað sleppt því að smella mynd af bókinni og vekja athygli á henni á Facebook.

„Þetta var nú held ég svona frekar hefðbundið að öðru leyti, held ég. Eitthvað svona sem maður hefði alveg ímyndað sér að væri í þingflokksherbergjum þannig að mér fannst mjög áhugavert að rekast á þessa bók þarna,“ segir Daníel.


Daníel leit við í herbergjum allra þingflokka og segist ekki hafa haft neinn sérstakan áhuga á Miðflokknum þrátt fyrir að flokkurinn hafi verið í brennidepli eftir að leyniupptökurnar frá Klaustri urðu heyrinkunnar.

„Ég fór í öll herbergin en fór nú aðallega bara til þess að skoða húsið sjálft. Ég gekk þarna hring í herberginu, lít í hilluna og það fyrsta sem ég sé er þessi bók. Ég varð eiginlega bara að taka mynd af þessu og ætlaði nú bara að sýna mínum nánustu hana.“

Daníel segist þó í ljósi umræðunnar ekki getað hafa stillt sig um að vekja athygli á bókinni á Facebook og bætir við að viðbrögðin hafi almennt verið góð. Fólki finnist þetta almennt fyndið þótt málið sjálft sé það í raun alls ekki.

„Mér sýnist flestum nú bara finnast þetta vera fyndið. Ég hef samt fengið einhverja sorgarkalla á þetta líka, en þetta er fyndið í ljósi alls þessa, þótt ég viti ekki alveg hvað manni á að finnast um þetta allt mál allt saman. Þetta er nú samt fyndinn vinkill á þessu.“

Man Walks Into A Bar 2 er sögð hafa notið gríðarlegra vinsælda, upplögð fyrir alla sem vilja heyra eða segja brandara. Grínið er flokkað eftir viðfangsefnum og þótt bókin sé varla jafn gróf og þingmannagrínið á Klaustri bendir flokkunin til þess að innihaldið falli ágætlega að drykkjuhúmor Miðflokksfólks en grínast er með eiginkonur, eiginmenn, læknar, lögmenn, Frakkar, Þjóðverjar, nunnur og apa svo eitthvað sé nefnt.

„Efni okkar mun gera þig að miðpunktinum á hverfisbarnum þínum eða vekja andstyggð á þér heima fyrir,“ segir útgefandinn um bókina og fer glettilega nálægt köldum raunveruleika Miðflokksins þessa dagana.