Bræðurnir Ágúst Arnar Ágústsson og Einar Ágústsson fá ekki afrit af gögnum sem fóru milli héraðssaksóknara og gagnagreiningardeildar lögreglu, vegna máls héraðssaksóknara á hendur þeim. Úrskurður þessa efnis var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.

Héraðssaksóknari gaf í fyrra út ákæru á hendur bræðrunum fyrir fjársvik og peningaþvætti og gaf þeim að sök að hafa svikið um 85 milljónir króna út úr ríkissjóði í gegnum trúfélagið Zuism. Undir í málinu eru einnig félög þeirra, EAF ehf. og Threescore LLC.

Lögmaður bræðranna sagðist í héraðsdómi í gær áskilja sér frest til að ákveða hvort úrskurðinum yrði skotið til Landsréttar til að fá honum hnekkt þar. Kom fram í réttinum að gert er ráð fyrir að aðalmeðferð í málinu sjálfu fari fram upp úr miðjum nóvember.