Bráðnun jökla heimsins hefur allt að því tvö­faldast á síðustu tuttugu árum og stuðlar nú jafn­mikið að hækkun sjávar­borðs og bráðnun ís­hellnanna á Græn­landi og Suður­skauts­landinu. Þetta kemur fram í greininni Accelera­ted global gla­cier mass loss in the ear­ly twen­ty-first century, sem birtist í vísinda­ritinu Nature í gær.

Í rann­sókninni var bráðnun jökla mæld með því að skoða breytingar á massa þeirra á árunum 2000 til 2019 með gervi­hnatta­gögnum. Á tíma­bilinu misstu jöklar heimsins um 267 gíga­tonn af ís á hverju ári og rekja má 21 prósent hækkunar sjávar­borðs til þessarar bráðnunar. Ís­lensku jöklarnir tapa um 9,4 gíga­tonnum af ís á ári.

Guð­finna Th. Aðal­geirs­dóttir, jökla­fræðingur, segir að um sé að ræða eina ná­kvæmustu rann­sókn sem gerð hefur verið á jöklum.

„Það sem er geggjað við þessa grein er að þau nota gervi­hnatta­gögn og mæla eigin­lega hvern einasta jökul í heiminum, sem hefur aldrei verið gert áður. Aldrei hefur verið tekin saman og gerð svona ná­kvæm stúdía fyrir alla jökla í heiminum,“ segir Guð­finna.

Guðfinna Th. Aðalgeirsdóttir, jöklafræðingur.
Mynd/Kristinn Ingvarsson

Mesta bráðnunin í Alaska

Höfundar greinarinnar vísa meðal annars í rann­sókn sem Guð­finna stóð fyrir og var birt í vísinda­ritinu Fronti­ers in Earth Science árið 2020. Í þeirri rann­sókn voru skoðaðar breytingar á ís­lenskum jöklum frá 1890 til 2019 og segir Guð­finna rann­sóknina í Nature stað­festa niður­stöður hennar.

„Niður­stöðunum ber mjög vel saman við það sem við birtum fyrir ári síðan. Það sem við mældum með beinum mælingum, það mæla þau með gervi­hnatta­gögnum og fá sömu niður­stöðu,“ segir Guð­finna.

Mesta bráðnunin á sér stað í Alaska sem ber á­byrgð á um 25 prósentum af heildar­tapi jökul­íss, Græn­land ber á­byrgð á um 12 prósentum, Norður- og Suður-Kanada 10 prósentum hvort fyrir sig og jöklar í Himala­ja­fjöllum um 8 prósentum.