Bráðnun Grænlandsjökuls af völdum hnattrænnar hlýnunar gæti leyst út læðingi stóra jarðskjálfta og flóðbylgjur. Þetta kom fram í erindi Bill McGuire, prófessors í jarðeðlisfræði við University College London, á Bresku vísindahátíðinni sem fram fór í vikunni og greint er frá á vef Financial Times.

McGuire sagði að við bráðnun Grænlandsjökuls fari mikill þungi af jarðskorpunni, það geti leitt af sér stóra jarðskjálfta undan ströndum Grænlands. Slíkir skjálftar geti leitt til flóðbylgna á borð við þá semvarð á Indlandshafi um jólin 2004 og olli dauða tæplega 230 þúsund manns.

Alaska kanarífuglinn í námunni

McGuire segir fordæmi fyrir þessu á Norðurslóðum, fyrir rúmum 8.200 árum hafi tuttugu metra há flóðbylgja skollið á Norðurlöndin og Bretlandseyjar.

„Við vitum ekki nóg um jarðlögin undan ströndum Grænlands til að geta nákvæmlega spáð fyrir um hvað gerist, en það er möguleiki á að stór flóðbylgja fari yfir Norður-Atlantshafið,“ sagði McGuire.

Síðustu tvo áratugi hafa margir milljarðar tonna af ís bráðnað af Grænlandsjökli. Ís hefur einnig verið að hopa í Alaska, þar eru nú þegar stærri skjálftar að mælast. Í júlí síðastliðnum mældist þar skjálfti upp á 8,2, sá stærsti í Bandaríkjunum í fimm áratugi. „Þegar kemur að áhrifum hnattrænnar hlýnunar á jarðskorpuna þá gæti Alaska verið kanarífuglinn í kolanámunni,“ sagði McGuire.