Ekki verður hægt að reka bráðamóttöku Landspítalans í óbreyttri mynd frá 1. mars ef uppsagnir hjúkrunarfræðinga ganga eftir, segir Helga Rósa Másdóttir, deildarstjóri bráðamóttöku Landspítalans.

Að sögn Helgu Rósu hafa nú borist uppsagnir sem nema tíu stöðugildum. „Inni í því er líka ákveðinn fjöldi sem er að biðja um lækkun á starfshlutfalli vegna þess að það treystir sér ekki til að vinna meiri vinnu við þessar aðstæður.“

Fyrir uppsagnirnar vantaði í fimm stöðugildi á bráðamóttökunni en aðeins þrír starfsmenn eru væntanlegir inn næstu tvo mánuðina, að sögn Helgu Rósu.

Hún segir alltof marga sjúklinga á bráðamóttöku og alltof mörg verk að vinna fyrir hvern haus, starfsmenn geti ekki lengur tryggt gæði þjónustunnar.

Bíða innlagnar í tugi klukkustunda

Um það bil helmingur þeirra sem eru á bráðamóttökunni í dag eru einstaklingar sem þarfnast innlagnar á öðrum deildum en komast ekki að. Að sögn Helgu Rósu eru einstaklingar á bráðamóttökunni sem bíða í yfir 100 klukkustundir þar, á meðan þeir bíða eftir plássi annars staðar.

„Sá sem er búinn að bíða lengst núna hefur beðið í 70 klukkustundir eftir að komast í innlögn.“

Helga Rósa segir bráðamóttökuna mjög meðvitaða um biðtímann og forgangsröðun, þau sinni fólki eins hratt og vel og hægt er.

„En það er bara mjög erfitt þegar við byrjum hvern dag hér með fulla deild af sjúklingum sem eiga að vera komnir annað.“

Þá ítrekar hún að þeir sem sæki bráðamóttökuna vegna slysa eða bráðra veikinda þurfi ekki að bíða í 70 klukkustundir. Það eigi eingöngu við um þá sem bíða innlagnar.

Útlitið slæmt

Spurð hvernig horfurnar á starfsemi bráðamóttökunnar séu næstu vikur og mánuði, segir Helga Rósa útlitið dökkt.

„Það verður ekki hægt að reka þessa bráðamóttöku í óbreyttri mynd 1. mars ef þessar uppsagnir ganga eftir,“ segir hún.

Að sögn Helgu Rósu þurfi að grípa til aðgerða; starfsemi bráðamóttökunnar þurfi að vera þannig að fólk treysti sér til að vinna þar.

„Ekki með heila legudeild ofan á þau verkefni sem þau eiga þegar að vera sinna. Það er ekki eðlilegt að hver hjúkrunarfræðingur sé að sinna allt að átta bráðveikum einstaklingum á hverjum tíma, þetta er langt um fram það sem öruggt getur talist,“ segir Helga Rósa.

Álag getur valdið mistökum

Spurð hvort hún verði meira vör við mistök vegna álags á bráðamóttökunni svarar Helga Rósa játandi.

„Auðvitað gerist það að sjúklingar fái lyfin sín seinna, hér er ekki aðstaða til að taka fólk fram úr og fara með þau á göngu eins og er gert á legudeildum. Hér er ekki til klósett eða sturtuaðstaða fyrir allan þennan fjölda þannig að það er ekki hægt að sinna almennilegu hreinlæti.“

Helga Rósa segir margt þurfa að breytast til að bæta heilbrigðiskerfið. „Það sem þarf að gerast er að réttur sjúklingur sé á réttum stað innan þjónustukeðju heilbrigðisgeirans.“

Þá þurfi betri umferðarstýringu og miklu fleiri úrræði inn í heilbrigðiskerfið heldur en er í dag.

„Núna er bráðamóttakan í rauninni orðin einhver þungamiðja þess úrræðaleysis sem er í öllu heilbrigðis- og félagskerfinu,“ segir Helga Rósa.