Hjalti Már Björns­son, yfir­læknir á bráða­mót­töku Land­spítalans, segir það „með verri þvælu sem hann hefur heyrt“ að sjúk­lingum sem smitast hafi með Co­vid-19 og eru með lang­varandi þurran hósta sé á­vísað Parkódíni, sem er mjög á­vana­bindandi ópíóíði.

„Þetta er gömul hefð, að nota þetta lyf, en núna á síðustu árum hafa komið fram rann­sóknir sem benda til þess að það geri mun minna gagn en við höfum trúað hingað til. Í ljósi þess að við vitum líka meira núna um skað­semi ópíóíða finnst mér ekki að þetta eigi að vera ofar­lega á blaði sem ráð við hósta,“ segir Hjalti Már í sam­tali við Frétta­blaðið.

Hann vakti máls á þessu á Twitter-síðu sinni í gær og vísaði þar í rann­sókn þar sem rann­sökuð voru á­hrif þess að nota hunang við hósta en það reyndist sam­kvæmt rann­sókninni vel. Þar er þó að­eins fjallað um á­hrif þess fyrir börn en hann segir að alls ekki eigi að nota Parkódín við hósta hjá börnum því það geti verið þeim hættu­legt.

„Það eru til góðar og vandaðar rann­sóknir sem benda til þess að hunang sé ein virkasta leiðin til þess að með­höndla hósta og því mæli ég með því sem fyrsta ráð.“

Getur parkódínið hjálpað á ein­hverjum tíma­punkti?

„Rann­sóknir hafa sýnt fram á að það gerir hverfandi lítið gagn við hósta. Þess vegna finnst mér ekki rétt að setja það upp sem fyrsta ráð við þrá­látum hósta vegna Co­vid. Ég mæli þess vegna með því að fólk noti fyrst önnur ráð þar sem hunangið er efst á blaði og síðan að reyna að forðast að nota ópíóíða í þessum að­stæðum. Sem parkódínið sannar­lega er.“

Í ljósi þess að við vitum líka meira núna um skað­semi ópíóða finnst mér ekki að þetta eigi að vera ofar­lega á blaði sem ráð við hósta.

Eru að reyna að takmarka notkun

Sam­kvæmt reglum Lyfja­stofnunar um þessa tíma­bundnu heimild til að selja Parkódín án lyf­seðils má hver ein­stak­lingur að­eins fá eina pakkningu af 500 milli­gramma töflum af Parkódíni með tíu töflum. Hjalti Már segir að það geti minnkað á­vana­hættuna af þessum lyfjum.

„En þetta er lyfja­flokkur sem við erum að reyna að minnka notkun á og það má minna á að þetta er sér­stak­lega hættu­legt börnum, sem eiga alls ekki að fá það, auk þess sem ein­stak­lings­bundið hvernig það verkar á fólk, þannig þetta er ekkert sér­stak­lega gott lyf og ein­kennandi fyrir ís­lenskan lyfja­markað hversu mikið er notað af því hér, miklu meira en á lyfja­markaði bæði austan og vestan hafs.“

Spurður hvers vegna það er telur Hjalti Már að það megi rekja til hefðar innan ís­lensks lækna­sam­fé­lags.

„Þetta er þekkt lyf sem hefur verið mikið notað, en stundum þarf að endur­skoða hefðir í ljósi nýrra rann­sókna og upp­lýsinga sem koma fram.“

Neyð til að draga úr álagi

Þessi tíma­bundna heimild til að selja Parkódín án lyf­seðils var sett á sam­kvæmt til­kynningu Lyfja­stofnunar vegna gríðar­legs á­lags á Heilsu­gæslu höfuð­borgar­svæðisins en sam­kvæmt hef heilsu­gæslunnar hafa læknar heilsu­gæslunnar á­vísað lyfinu til að slá á hósta, sem er eitt ein­kenna Co­vid-19.

„Þetta er neyð sem er hugsuð til að draga úr því mikla á­lagi sem er á starfs­fólki heilsu­gæslunnar en ég hefði sjálfur kosið að það væri að­eins minni á­hersla á ópíóíða en er lagt upp úr með þessu,“ segir Hjalti Már og að önnur úr­ræði séu minni og hættu­minni.

Greint var frá því í gær að eftir að heimildin var sett á hafi Parkódín rokið úr hillum apó­teka og lyf­salar tekið upp á því að selja rofnar pakkningar, það er að opna pakkningar til að selja að­eins tíu stykki.