Brabus-útgáfan verður á sama Geely SEA-undirvagninum en fær tvo mótora, hvorn á sinn öxul. Þess vegna verður bíllinn með fjórhjóladrifi og samtals 422 hestöflum ásamt 543 Nm togi. Það þýðir að þessi létti bíll verður aðeins 3,9 sekúndur í hundraðið. Eins og sjá má verður bíllinn með endurhönnuðum stuðurum og kæliraufum undir húddinu. Brabus-útgáfan fær 19 tommu felgur og rauðan lit á móti mattgráum aðallit. Engar tölur eru komnar yfir verð á bílnum en hann verður frumsýndur hérlendis samhliða smart #1 um mitt næsta ár, að sögn Jónasar Kára Eiríkssonar hjá Öskju. Hefst forsala á bílunum næsta vor og mun þá verð þeirra liggja fyrir.