Stundin hefur svift hulunni af því hver dularfulli upptökumaðurinn, sem áður hefur verið kallaður Marvin í fjölmiðlum, er.  Marvin heitir Bára Halldórsdóttir, og segir hún í viðtali við Stundina að hún sé 42 ára gömul, samkynhneigð og öryrki. Bára tók upp samræður þingmannanna sex á Klaustri í nóvember og sendi nokkrum fjölmiðlum upptökuna. Umrætt kvöld var Bára á leið á æfingu í Iðnó og settist inn á Klaustur bar til þess að drepa tímann fram að æfingu. 

Heyrði þingmenn tala um „kellingu“ sem hætti ekki að tala

Eftir að hún hafði komið sér fyrir á Klaustri varð hún vör við að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sem hún kannaðist við sem fyrrverandi forsætisráðherra.  Segist hún hafa lítið velt fyrir sér hópnum fyrr en hún heyrði talsmáta þeirra. 

„Fyrst var ég lítið að spekúlera í þessu, en svo heyrði ég allt í einu að Sigmundur og mennirnir sem hann var með voru að tala um að einhver „kelling“ á þingfundi hefði „aldrei ætlað að hætta að tala“, eitthvað um „kellingu í ræðustól alveg endalaust“ eða eitthvað í þá áttina, og ég varð svo hissa. Svo heyrði ég eitthvað enn grófara, ég man ekki nákvæmlega hvað, en það var eitthvað sem sló mig. Mér varð fljótlega ljóst að þetta voru stjórnmálamenn, opinberar persónur. Svo ég ákvað bara að prófa aðeins að kveikja á upptökuforritinu í símanum mínum,“ segir Bára. 

Ætlaði vart að trúa eigin eyrum

Trúði hún vart eigin eyrum og ákvað að byrja að taka upp, en upptökutækið var farsími af gerðinni Samsung Galaxy A5 og segir Bára þingmennina hafa talað svo hátt að samræðurnar heyrðust yfir allan barinn. Sjálf segist hún ekki hafa gert sér grein fyrir því hve mikil áhrif upptökurnar myndu hafa, eða yfir höfuð hvað hún ætlaði sér með þær.

„En því meira sem ég hlustaði, því reiðari varð ég, því þarna voru saman komnir valdamiklir menn að spúa hatri yfir minnihlutahópa á almannavettvangi,“ segir Bára.  

„Ég var ekki búin að hafa kveikt á upptöku nema í stutta stund þegar þeir eru farnir að tala um að ríða einhverjum skrokkum og ég veit ekki hvað – og ég ætlaði ekki að trúa þessu. Við vorum stödd í opnu rými, á stað sem er opinn almenningi, og þau töluðu svo hátt að það heyrðist um allt og meira að segja yfir í hitt rýmið á barnum.“ 

Kipptist við að heyra selahljóðið

„Selahljóðið“ sem heyrist í upptökunum hefur verið á allra vörum síðustu vikuna, en hljóðið heyrist þegar þingmenn ræddu Freyju Haraldsdóttur, fyrrum varaþingmann Bjartrar framtíðar. Freyja greindi frá því í síðustu viku að Sigmundur Davíð hefði hringt í hana og útskýrt að hljóðið væri að öllum líkindum stóll sem hefði verið hreyfður til og þingmenn hefðu ekki verið að gera gys að Freyju er hana bar á góma. 

Bára segist hins vegar handviss um að hljóðið hafi komið að innan. „Ég heyrði þetta hljóð og kipptist við. Það er alveg ljóst að þetta hljóð var framkallað innanhúss og það kom úr þeirra átt,“ segir Bára.

Sem fyrr segir er Bára öryrki og í viðtalinu lýsir hún ísköldum raunveruleika öryrkja hér á landi. Bára glímir við sjúkdóm sem nefnist Behcet's, sjaldgæfur gigtarsjúkdómur sem leggst á æðakerfi líkamans. Segir hún fötlunarfordóma finnast víða og segist ekki geta annað en velt fyrir sér hvort fordómafull viðhorf gagnvart öryrkjum eigi þátt í því hve tregir þingmenn hafa verið að bæta kjör þeirra. 

Engar einkasamræður

Sexmenningarnir, þá helst Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Miðflokksins, hafa ítrekað talað um að uppljóstrarinn hafi hlerað einkasamtöl hópsins. Gefur Bára lítið fyrir það og segir þingmennina hafa talað mjög hátt, svo hátt að samræður heyrðust um allan barinn. 

„Við vorum stödd í opnu rými, á stað sem er opinn almenningi, og þau töluðu svo hátt að það heyrðist um allt og meira að segja yfir í hitt rýmið á barnum,“ segir hún. „Ég vildi óska að þetta hefði verið einkasamtal, en ég sat undir þessu og satt best að segja trúði ég ekki mínum eigin skilningarvitum.“

Bára segist hafa verið í áfalli þegar hún kom heim umrætt kvöld og sýnt eiginkonu sinni upptökurnar. Hún segist þó vera stolt að því að vera „litla þúfan sem velti þessu þunga hlassi.“ 

Viðtalið má í heild sinni lesa í nýjasta tölublaði Stundarinnar.