Bjarni Bærings Bjarnason er bótaskyldur gagnvart félaginu Brúarreykjum ehf. vegna tjóns sem félagið gæti hafa orðið fyrir vegna aðgerðaleysis hans eftir að dreifing afurða mjólkurbúsins Brúarreykja var bönnuð með ákvörðun Matvælastofnunar (MAST) árið 2013. Héraðsdómur Vesturlands kvað upp dóm þessa efnis fyrir helgi.

Brúarreykir ehf. var stofnað af Bjarna og þáverandi sambýliskonu hans árið 2002 og áttu þau félagið að jöfnu. Sá Bjarni um búrekstur og var framkvæmdastjóri félagsins til 2011 en þá var kona hans skráð í framkvæmdastjórn þess.

Í nóvember 2012 afturkallaði MAST starfsleyfi Brúarreykja til matvælaframleiðslu vegna ítrekaðra brota á lögum og reglugerðum um matvæli á árinu. Sú ákvörðun var síðar staðfest af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

Starfsleyfi var veitt að nýju í janúar 2013 en í kjölfar eftirlitsferðar MAST í febrúar sama ár var aðstaða og fóðrun gripa metin óásættanleg. Farið var fram á ýmsar úrbætur og gripir teknir til aflífunar.

Í júní sama ár var afhending afurða og dýra frá búinu bönnuð meðal annars vegna þess að meðferð dýralyfja hefði ekki verið í samræmi við lög og reglur. Bjarni stefndi ríkinu til ógildingar á þessum aðgerðum og taldi um valdníðslu af hálfu MAST ræða. Þeim málatilbúnaði var hafnað.

Banninu var aflétt, að skilyrðum uppfylltum, í ágúst en í mars 2014 var starfsleyfið afturkallað á ný. Var það meðal annars vegna þess að eftirlitsmönnum var neitað um aðgang að búinu. Allir nautgripir félagsins voru síðan seldir í júní 2014.

Brúarreykir báru því við að Bjarni hefði séð um allan daglegan búrekstur frá árinu 2011 auk þess að vera hluthafi og prókúruhafi. Byggt var á því að með athafna- og aðgerðaleysi sínu hefði hann bakað búinu tjón. Það fólst í því að í stað þess að vinna að úrbótum á aðbúnaði til að tryggja áframhaldandi sölu afurða frá búinu hefði Bjarni einbeitt sér að því að véfengja niðurstöður MAST. Með því hefði hann aukið á tjón búsins í stað þess að lágmarka það.

Varnir Bjarna byggðu á því að meðeigandi hans hefði einnig gegnt stöðu framkvæmdastjóra og málinu því verið ranglega beint að honum einum. Þá hefðu aðgerðir hans, meðal annars sala búpenings, miðað að því að draga úr tjóni Brúarreykja.

Héraðsdómur taldi Bjarna hafa verið ábyrgan fyrir því að rekstur búsins væri í lagi enda óumdeilt að hann hefði séð um hann. Með því að hafa ekki reynt að tryggja að aðbúnaður væri í löglegu horfi bæri hann bótaábyrgð á tjóni. Þá var sala búfjárins metin óvenjuleg og mikilsháttar ráðstöfun í skilningi hlutafélagalaga sem samþykki hluthafa hefði þurft fyrir.

Bótaábyrgð var felld á Bjarna og þarf hann að auki að greiða rúma milljón í málskostnað.