Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði í dag frá tveimur málum sem Samtök sparifjáreigenda höfðuðu á hendur Hreiðari Má Sigurðssyni, fyrrverandi bankastjóri Kaupþings og Ólafs Ólafssonar, fyrrum aðaleiganda Kaupþings. Kröfðu Samtök Sparifjáreigenda Ólaf og Hreiðar Má hvorn um sig um rúmar 900 milljónir í skaðabætur.

Byggir málshöfðunin á viðskiptum lífeyrissjóðsins Stapa með hlutabréf í Kaupþingi mánuðina fyrir fall bankans. Töldu Samtök Sparifjáreigenda að brotið hefði verið á hluthöfum vegna ólögmætrar markaðsmisnotkunar í tengslum við al Thani málið. Skaðabóta var krafist vegna þess að lífeyrissjóðurinn hefði keypt hlutabréf í bankanum á of háu verði.

Málinu vísað frá og ekki sýnt fram á að sjóðurinn hefði verið blekktur

Hreiðar Már og Ólafur höfnuðu báðir kröfunni og kröfðust frávísunar. Dómari vísaði málinu frá og tók meðal annars fram að ekki hefði verið fjallað um hugsanlegan hagnað Stapa af hlutafjáreigninni áður en ólögleg markaðsmisnotkun átti sér stað.

Auk þess hafi Stapi bæði keypt og selt hlutabréf í Kaupþingi á tímabilinu sem um ræddi í málinu og að ekki væri sýnt fram á að sjóðurinn hefði verið blekktur við viðskiptin.

Samtök sparifjáreigenda skulu greiða Hreiðari Má og Ólafi 1.365.000 krónur í málskostnað hvorum um sig.