Börnum í Seljaskóla var haldið inni í frímínútum í dag vegna manns sem hafði kynferðislega tilburði gagnvart nemendum skólans á skólalóðinni í gær og aftur í dag rétt utan lóðarinnar. Bréf barst foreldum og forráðamönnum frá skólanum þar sem greint er frá því að maðurinn, hafi aftur í dag berað sig gagnvart nemanda í morgunfrímínútunum, þrátt fyrir góða gæslu lögreglunnar í dag. Börnin, sem eru 650 í skólanum, voru því inni í skólahúsnæðinu í seinni frímínútunum.

„Það var kominn ótti í starfsfólkið og nemendur svo við jukum gæsluna“, segir Magnús Þór Jónsson skólastjóri.

Í bréfi til forráðamanna skrifar Magnús:

„Ég lýsti í gær atviki við skólalóð Seljaskóla og þeim aðgerðum sem við hugðumst grípa til í framahaldi þess.

Í morgun jukum við verulega gæslu á skólalóðinni auk þess sem við óskuðum þess að lögregla yrði í nágrenni skólans í kringum frímínútur, auk þess að brýna fyrir nemendum að yfirgefa ekki lóðina“, stendur í bréfinu.

Magnús segir að því miður hafi það ekki dugað til og lögreglan rannsaki málið. Haft hafi verið samband við forráðamann þess barns sem varð fyrir áreitinu og frístundaheimilum og Íþróttafélagi Reykjavíkur gert vart við. Skólastjórnendur sjái nú til hvernig tilhögun verður á morgun vegna þesss.