Kópavogsbær greiðir hæstu frístundastyrkina, 56 þúsund krónur, á ári fyrir hvert barn á aldrinum 5 til 18 ára, samkvæmt nýrri úttekt Alþýðusambands Íslands.

Alls skoðaði verðlagseftirlitið tuttugu sveitarfélög en styrkirnir eru misháir og eru greiddir út til mismunandi aldurshópa.

Engir frístundastyrkir eru greiddir í Grindavík og á Ísafirði en Fjarðarbyggð er með lægstu styrkina, tíu þúsund krónur, á ári fyrir hvert barn á aldrinum 6 til 17 ára en sveitarfélagið bauð ekki upp á styrki árið 2020.

Rannsóknir hafa sýnt að þátttaka í tómstundastarfi hefur áhrif á vellíðan barna og unglinga. Þá hefur jafnframt verið sýnt fram á forvarnargildi tómstundastarfs.

Tómstundir geta verið dýrar og fjölskyldur eru í misjafnri stöðu til að greiða fyrir þær. Styrkirnir stuðla að því að börn geti tekið þátt í tómstundastarfi óháð efnahag og félagslegum aðstæðum og jafna tækifæri þeirra til tómstundaiðkunar.

Næst hæstu styrkirnir eru hjá Hafnafjarðarbæ eða 54 þúsund krónur á hvert barn en styrknum þar er skipt niður á mánuði þannig aðeins hluti styrksins er laus til notkunar í hverjum mánuði.

Mosfellsbær fylgir fast á eftir Hafnarfjarðarbæ og greiðir 52 þúsund krónur á mánuði fyrir fyrsta og annað barn en síðan hækkar styrkurinn upp í 60 þúsund krónur fyrir þriðja barn.

Það sama á við um Akranes, þar hækka styrkirnir fyrir annað og þriðja barn.

Fjögur sveitarfélög; Reykjavík, Seltjarnarnes, Garðabær og Vestmannaeyjar greiða öll 50 þúsund krónur á ári.

Í Vestmannaeyjum gildir styrkurinn lengst fyrir börn á aldrinum 2 til 18 ára en 5 til 18 ára hjá Seltjarnarnes og Garðabæ og hjá Reykjavíkurborg 6 til 18 ára.

Hveragerði og Suðurnesjabær eru með lengsta aldursbilið fyrir styrkina en þar er greitt fyrir hvert barn á aldrinum núll til 18 ára.

Rétt er að geta að úttekt ASÍ nær eingöngu til frístundastyrkja sem foreldrar geta ráðstafað til að niðurgreiða tómstundir barna.