Börn á aldrinum 12 til 15 ára á höfuð­borgar­svæðinu verða bólu­sett gegn Co­vid-19 í Laugar­dals­höll í lok ágúst en þetta kemur fram í til­kynningu á vef Heilsu­gæslunnar. Börn fædd 2006 og 2007 mæta í bólu­setningu mánu­daginn 23. ágúst og börn fædd 2008 og 2009 mæta þriðju­daginn 24. ágúst.

„For­eldrar sem þiggja bólu­setningu fyrir börn sín eru beðnir um að fylgja börnum sínum og þannig veita þeir sam­þykki fyrir bólu­setningunni. For­eldrar munu sitja við hlið barna sinna í bólu­setningunni,“ segir í til­kynningu Heilsu­gæslunnar.

Tvö bólu­efni hafa verið sam­þykkt fyrir börn á aldrinum 12 til 15 ára hér á landi, bólu­efni Pfizer og bólu­efni Moderna. Á­kveðið var að bólu­setja börn ekki í sumar vegna stöðu far­aldursins og mögu­legra auka­verkanna en vegna fjölda smita síðustu vikur var á­kveðið að endur­skoða það.

Þá hefur einnig óvissa verið til staðar um hvernig fyrirkomulag bólusetninga barna skyldi háttað þar sem þau þurfa yfirleitt meiri stuðning og forráðamenn þurfa að veita leyfi. Á fimmtudag sagði staðgengill sóttvarnalæknis að ekki stæði til að bólusetja í Laugardalshöll en svo virðist sem það hafi verið endurskoðað.

Ekki verður boðað í bólu­setninguna líkt og gert var með full­orðna heldur verður þeim gert að mæta á á­kveðnum tíma, eftir því hve­nær á árinu þau eru fædd. Börn fædd 2006 mæta í bólu­setningu fyrir há­degi og 2007 eftir há­degi á mánu­deginum og á þriðju­deginum mæta börn fædd 2008 fyrir há­degi og börn fædd 2009 eftir há­degi.