„Það er undursamlegt að vera hérna og við erum búnir að bera fagnaðarerindið um allar víkur og hreppa,“ segir Snorri Másson. Hann og Jakob Birgisson keyra nú um Vestfirði og fræða börn um handritin. Þegar Fréttablaðið náði af þeim tali voru þeir að renna í hlað við grunnskólann á Súðavík.

Handritin til barnanna heitir átak Árnastofnunar til að kynna menningararfinn fyrir nýrri kynslóð og verður farið í alla grunnskóla landsins.

Á flestum stöðum fræða þeir börn í 5. til 7. bekk, en sums staðar yngri börn. Segja þeir börnin afar áhugasöm. „Þau verða alveg bergnumin. Við búumst við miklum hvelli í innritun í Hugvísindadeild háskólans haustið 2027,“ segir Snorri.

Verðskuldi vopnaðan vörð

Spurningaregnið dynur á þeim félögum þegar þeir mæta og margar spurninganna snúast um peningalegt verðmæti. „Þeim finnst sérstakt að handritin séu geymd í venjulegu húsi í Reykjavík. Þau spyrja mikið út í öryggisgæsluna, hvort það sé vörður á staðnum og hvort hann sé vopnaður,“ segir Jakob. Verðmæti handritanna er nefnilega heilmikið og nefnir Jakob að framreiknað verð Skarðsbókar, sem keypt var á uppboði árið 1965, sé meira en hundrað milljónir króna.

„Krökkunum finnst afleitt að Árni hafi verið að bögglast með handritin til Danmerkur á sínum tíma,“ segir Snorri og Jakob tekur undir það. „Þau eru þjóðræknari en við og finnst að það sem íslenskt er eigi að vera á Íslandi,“ segir Jakob.

Jakob og Snorri ferðast um með Flateyjarbók og fleiri handrit til að sýna börnunum. En þar sem þetta eru eftirlíkingar þurfa þeir ekki að vera í vopnaðri fylgd.

Í fótspor Árna

Börnin fá að skoða þessa gripi og reyna að lesa af þeim. Lýsa svo Jakob og Snorri handritunum, áhrifum þeirra og fjalla stuttlega um ævi Árna Magnússonar safnara.

„Við erum svolítið að feta í fótspor Árna, sem ferðaðist hér um sumarið 1710,“ segir Snorri. Vitnar hann í Árna sjálfan úr sendibréfi sem hann skrifaði. „Ekki verður í fáum orðum lýst þeim óþægindum sem fyrir verða ef menn ætla að ferðast um landið og koma einhverju í verk.“ Hafi vinna Árna við jarðabókina tafist um mörg ár.

Þeir félagar gista nú í hinu forna skólasetri að Núpi í Dýrafirði þar sem er nú mjög kalt en þeir láta það ekki á sig fá. „Ólíkt Árna njótum við þess að vera hér og okkur gengur mun betur,“ segir Snorri.