Í dag er alþjóðadagur barna en 31 ár er frá því að Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna var samþykktur.

Kristín, Ísabel, Bergþóra, Baldur og Hjalti, nemendur í sjötta bekk og fulltrúar í réttindaráði Laugarnesskóla, þekkja réttindi sín vel núna.

Laugarnesskóli fékk viðurkenningu árið 2017 sem Réttindaskóli UNICEF á Íslandi. Í viðurkenningunni felst að grunnforsendur Barnasáttmálans eru útgangspunktur fyrir allar ákvarðanir í skólastarfinu.

Þessi mynd Iðunnar táknar að allir heiminum eigi að vera vinir. Fyrir sönnum vini skiptir ekki máli hvernig þú lítur út.

„Við þurfum að halda áfram að vera réttindaskóli. Við erum að reyna að halda áfram verkefninu þannig að allir þekki sín réttindi,“ segir Ísabel.

Með því að allir þekki réttindi sín og annarra er kominn grundvöllur að samtali til að stöðva einelti. „Þau fatta þá að þetta er ekkert sniðugt,“ segir Kristín. „Ef einhver sér eitthvað slíkt á skólalóðinni þá veit hann eða hún að þarna er verið að brjóta réttindi.“

Það sem er þeim efst í huga er COVID-19 faraldurinn, áhrif hans á líf þeirra, skólastarfið og heiminn allan. „Þetta er búið að vera rosalega skrítið,“ segir Kristín og fær undirtektir allra hinna. „Við þurftum að koma með grímur í skólann, það var mikið sjokk,“ segir Bergþóra. „Það voru allir að kvarta undan grímunum.“

Arnlaugur vill að allir séu jafnir óháð því hvernig þeir eru á litinn.

Ísabel segir helsta vandann hafa verið að passa að vera alltaf með hana á sér. „Maður er svo hræddur um að einhver komi og segi að maður sé ekki með grímu, eins og eitthvað vanti á andlitið.“ Öll eru þau ánægð að vera laus við grímurnar og ekki síst að íþróttaæfingar séu byrjaðar aftur. „Ég fór á fótboltaæfingu í gær,“ segir Hjalti ánægður.

Þau hafa öll góða þekkingu á sjúkdómnum sjálfum, hvernig hann berst og hvernig bóluefni miðar, ekkert af þeim er þó spennt að fá sprautu.

„Það er svo mikið af fólki sem leiðist, sérstaklega fólk sem er í sóttkví eða í einangrun. Þess vegna langar mig svo mikið að þetta hætti og sé búið,“ segir Bergþóra.

Þau eru handviss um að muna þetta tímabil vel út ævina. „Ég mun muna þetta sem leiðinlegustu daga lífs míns,“ segir Hjalti og uppsker hlátur.

Þórunn Agnes teiknaði þessa mynd og biður fólk að hætta að menga.

Bergþóra heldur dagbók yfir þetta tímabil. „Ég hugsaði að ég ætla að skrifa dagbók því ég hef ekkert að gera, svo ætla ég að sýna börnunum mínum þegar þau læra um þetta í skólanum,“ segir hún. „Svo ætla ég að verða 106 ára og vera sú eina eftirlifandi sem man eftir COVID.“

Ísabel hugsar sér að gera eitthvað svipað. „Ég ætla að segja barnabörnunum mínum frá árinu 2020. Það var sko verkfall, COVID og allt annað,“ segir hún. „Ég ætla líka að klippa þetta út úr blaðinu til að sýna þeim.“ Þetta verða ekki aðeins neikvæðar minningar. „Ég ætla að muna hvað ég fékk mikið frí,“ segir Baldur.