Börn í einum grunnskóla á landinu, Víkurskóla í Grafarvogi, þurfa ekki að mæta í skólann á mánudagsmorgnum fyrr en klukkan tíu. Hina fjóra daga vikunnar hefst skólinn klukkan 8.40.

Ákveðið var þegar við upphaf skólastarfs í Víkurskóla, haustið 2020, að gefa skólabörnum aukinn tíma á mánudagsmorgnum áður en þau hefja störf.

Betra að fá lengri svefn

„Við ákváðum að gefa þeim góðan tíma á mánudögum, það er betra fyrir þau að fá lengri svefn,“ segir Þuríður Óttarsdóttir, skólastjóri Víkurskóla. Hún segir skólann vera safnskóla, börn komi úr fjórum hverfum og fari um mislangan veg í skólann.

Fréttablaðið hefur síðustu daga fjallað um lítinn svefn barna og ungmenna. Ákall hefur komið fram hjá foreldrum um að skólabyrjun verði seinkað á morgnana.

Tilraunaverkefni er í pípunum hjá Reykjavíkurborg þar sem nokkrir skólar verða valdir og upphafi kennslu seinkað á morgnana.

Skapar betra andrúmsloft

Þuríður hefur mikla reynslu af kennslu og segist hún þeirrar skoðunar að fyrirkomulagið í Víkurskóla sé til bóta fyrir heilsu skólabarnanna og bæti námsárangur þeirra. Sum börn ákveði að mæta töluvert fyrir klukkan 10 á mánudögum en þau hafi þá aðgengi að bókasafni, geti fengið sér graut í morgunmat eða slakað á og búið sig undir fyrstu kennslustundir.

„Ég held að þetta skapi betra andrúmsloft,“ segir Þuríður og bætir við að þótt starfsfólk mæti alla daga klukkan átta sé einnig til bóta fyrir kennarana að fá tíma til að undirbúa skólastarfið.

„Þetta fyrirkomulag léttir á streitunni. Þegar minni streita er hjá starfsfólki smitar það líka yfir í nemendahópinn,“ segir Þuríður.

Einnig verði minni streita á heimilum.

„Ef börnin þurfa ekki að vera mætt eldsnemma, þarf engan asa til að koma þeim í skólann," segir Þuríður.