Steingerður Sigurbjörnsdóttir, barnalæknir og barna-og unglingageðlæknir, segir mikilvægt að foreldrar átti sig á því að börn missa ekki af því sem er í gangi í samfélaginu vegna kórónaveirunnar. Þetta kom meðal annars fram á blaðamannafundi Almannavarna fyrr í dag.
Þar lagði Steingerður á það áherslu á að börn heyri foreldra sína ræða málin. Þau hafi gjarnan áhyggjur af afa og ömmu og mömmu og pabba. „Og þegar rætt er um eldra fólk, finnst þeim jafnvel þrítugt fólk vera gamalt,“ segir Steingerður og segir mikilvægt að foreldrar ræði vð börn sín um málin.
Þá bendir hún á að atburðirnir geti haft meiri áhrif á börn sem nýlega hafa upplifað áföll, líkt og jarðskjálfta eða persónulegri áföll, heldur en börn sem ekki hafa upplifað slíkt áður.
Hvernig sýna börnin að þau hafi áhyggjur?
„Hvernig sýna börnin að þau hafi áhyggjur? Það fer eftir aldri viðkomandi og þrostkastigi og aðstæðum. Eldri krakkar, unglingar, gjarnan draga sig í hlé og eiga í minni samskiptum við sína nánustu. Yngri börn geta of tkomið með einkenni eins og pirring, skapofsaköst, svefnerfiðleika, minnkandi matarlyst og allskonar þannig hluti. Fullorðna fólkið þarf að vera duglegt að lesa í þetta,“ segir Steingerður.
„Við þurfum að ganga út frá því að sjáum við breytingar í hegðu barns að það geti hugsanlega stafað af áhyggjum og kvíða. Mæta þeim á þann hátt en ekki eins og um sé að ræða hegðunarvandamál.“
Hvað getum við gert sem hjálpar?
Steingerður segir að það sé lykilatriði að hvetja börnin og sjá til þess og stuðla að því að þau mæti í skólann. Hún leggur á það áherslu að skólinn sé meira en bara byggingin, skólinn sé lífsstíll. Huga þurfi að því að börnin fái nægan mat, sofi nóg og hreyfi sig.
Á sóttvarnartímum sem þessum séu oft miklar breytingar í fjölskyldunni. Foreldrar jafnvel mikið ein heima, í sóttkví eða í vinnunni. „Þá skiptir miklu máli að það sé fyrirsjáanleiki í daglegu lífi. Þau viti hvenær þau eigi að fara á fætur, eftir því sem hægt er. þar geta foreldrar og börn ákveðið saman hvað geti fairð inn í dagskrá dagsins. Valtími til dæmis, þar esm má leika, og þá er hægt að búa til listi yfir það sem má velja til að leika með.“
Þannig sé hægt að veita börnum öryggi á róstursömum tímum. Þá er mikilvægt að hvetja börnin til að umgangast vini sína, ekki síst unglinga og ungmenni. Þá þurfa fullorðnir að hvetja börn sín til að eiga í samskiptum við afar sínar og ömmur og til þess sé hægt að nota tæknina eins og kostur er til að rjúfa einangrunina.

Barnið drekkur kvíðann í gegnum húðina
„Það er hægt að virkja krakkana í heimilisstörf við hæfi. Við þurfum líka að hafa í huga að við sjálf erum aðalfyrirmyndirnar í því hvernig við tökumst á við þetta allt saman. Ef við höfum áhyggjur og erum kvíðin drekkur barnið það í gegnum húðina. Við þurfum að stýra okkar hegðun og ef við þurfum að taka það út, ekki gera það fyrir framan barnið.“
Steingerður leggur áherslu á að hún sé ekki að hvetja til þess að upplýsingum vegna faraldursins sé haldið frá krökkum.
„Það er ekki þar með sagt að það eigi að dylja neitt fyrir barninu. Borgar sig að vera hreinskilinn en þarf að velja hvaða upplýsingar eru gefin börnunum, byggt á þroskastigi og aldri. Ef spurt, vera hreinskilinn og segja hlutina eins og þeir eru en á sama tíma, benda á það jákvæða. Segja hvað sé vel gert og benda á það sem verið er að gera.“
Hún segir að umfram allt vilji börn hafa fjölskylduna og foreldra sína hjá sér. „Við sem foreldrar þurfum að hreyfa okkur, sinna eigin heilsu og borða hollan mat. Jafnvel þó rútínan raskist þurfum við að taka þetta af æðruleysi í tíunda valdi.“
Hún segir að takmarka megi upplýsingar til barnanna. „Upplýsingar eru af hinu góða en má alveg takmarka fréttir og hrakfallaspár fyrir börnum. Þau hafa ekki endilega gott af því að horfa á það allt. Við þurfum að halda yfirvegun, ekki missa stjórn, ekki láta neitt bitna á börnum.“
Þá segir hún að mikilvægt sé að tala um eitthvað annað en vírusinn við börnin. „Við þurfum að tala við börnin um eitthvað annað en þennan vírus. Líta á þetta sem tækifæri til að gera eitthvað annað, skoða náttúruna, vera í námi. Skóli og nám eru meira hugarfar heldur en bygging.
Varðandi unglingana þurfum við sérstaklega að eiga frumkvæði að því að vera með þeim.“