Könnunin, sem ber yfirskriftina The Changing Childhood Project, náði til um 20 þúsund manns í 21 landi í Afríku, Asíu, Evrópu og Norður- og Suður-Ameríku. Annars vegar var rætt við ungt fólk á aldrinum 15 til 24 ára og hins vegar við fólk yfir fertugt.

Könnunin er sú fyrsta sinnar tegundar þar sem ólíkar kynslóðir eru spurðar út í heimssýn sína og hvernig það er að vera barn í dag. Með því að bera saman reynslu og viðhorf ungs fólks og eldra birtist mikilvæg sýn á það hvernig bernskan er að breytast í síbreytilegum heimi.

Nemendur í barnaskóla í Jemen rétta áhugasamir upp hönd. Skólinn þeirra er aftur á móti slysagildra enda húsnæðið óklárað, án glugga, hurða og snyrtinga.

Niðurstöður könnunarinnar sýna fram á mikinn mun þegar kemur að því hvernig yngri kynslóðin lítur á heiminn í kringum sig, horfur sínar og á sumum sviðum gildi sín. Þrátt fyrir aðkallandi vanda eins og heimsfaraldur Covid-19 og hamfarahlýnun; og jafnvel þótt ójöfnuður hafi aukist og enn frekar hafi reynt á geðheilsuna, er ungt fólk líklegra til að segja heiminn – og bernskuna sjálfa – fara batnandi með hverri kynslóð.

Bjartsýn en ekki barnaleg


Niðurstöðurnar benda til þess að ungt fólk telji barnæskuna sem slíka hafa batnað og yfirgnæfandi meirihluti telur að heilbrigðisþjónusta, menntun og öryggi barna sé betri nú en þegar foreldrar þeirra voru börn.

Þrátt fyrir þessa bjartsýni eru ungmenni fjarri því að vera „barnaleg“ í sýn sinni á samfélagsmein nútímans. Þau lýsa áhyggjum sínum og óþolinmæði varðandi aðgerðir í þágu hamfarahlýnunar, þau eru gagnrýnin á þær upplýsingar sem haldið er að þeim á samfélagsmiðlum og glíma einnig við erfiðar tilfinningar á borð við þunglyndi og kvíða.

Börn og ungmenni eru mun líklegri en eldri kynslóðir til að líta á sig sem heimsborgara og eru opnari fyrir alþjóðlegu samstarfi í baráttunni gegn hættum eins og heimsfaraldri Covid-19.

Hinn sjö ára David, íbúi lýðveldisins Kongó, lifði af ebólu­smit og er þakklátur fyrir að komast aftur í skólann.

„Það er enginn skortur á ástæðum til svartsýni í heiminum í dag: Hamfarahlýnun, heimsfaraldur, fátækt og misskipting, aukið vantraust og þjóðernishyggja. En hér er ástæða til bjartsýni: Börn og ungmenni neita að horfa á heiminn í gegnum sömu svartsýnisgleraugun og fullorðnir,“ segir Henrietta Fore, framkvæmdastjóri UNICEF.

„Í samanburði við eldri kynslóðir er æska heimsins vongóð, alþjóðlega þenkjandi og staðráðin í að gera veröldina að betri stað. Unga fólkið í dag hefur vissulega áhyggjur af vandamálum framtíðarinnar en sér sig frekar sem hluta af lausninni þar á.“

57% telja heiminn fara batnandi

Unga fólkið lítur framtíðina bjartari augum en eldri samborgarar sínir. Að meðaltali yfir það 21 land sem kannað var, finnst 57 prósent unga fólksins heimurinn fara batnandi með hverri kynslóð – á móti 39 prósentum þeirra sem eldri eru.

78% telja Netið hættulegt

Meirihluti ungs fólks telur hættur steðja að börnum á Netinu. 78 prósent þeirra telja ofbeldisfullt- eða kynferðislegt efni hættulegt og 79 prósent óttast neteinelti.

17% treysta samfélagsmiðlum

Aðeins 17 prósent ungmenna segja að hægt sé að treysta samfélagsmiðlum til að finna réttar upplýsingar.

64% telja börn muni hafa það betra

64 prósent ungs fólks í lág- og millitekjuríkjum telja að börn í þeirra landi muni hafa það fjárhagslega betra en foreldrar þeirra en ungmenni í hátekjuríkjum hafa lítið traust á efnhagskerfum. Þar telja innan við þriðjungar svarenda að börn í dag muni hafa það betra fjárhagslega en foreldrar þeirra.

36% upplifa kvíða

Rúmlega þriðjungur ungmenna segjast oft upplifa áhyggjur eða kvíða og nærri einn af hverjum fimm segist oft finna fyrir þunglyndi og áhuga- og framtaksleysi.

59% upplifa pressu

Að meðaltali telja 59 prósent ungmenna að börn í dag lifi við meiri pressu að gera betur en foreldrar sínir.

Þessar stúlkur léku á tónleikum til styrktar opinberrar tónlistarmiðstöðvar í Caracas, Venesúela..

75% vilja harðari aðgerðir í loftslagsmálum

Að meðaltali telja nærri 75 prósent ungmenna, sem eru meðvituð um loftslagsbreytingar, að stjórnvöld eigi að grípa til harðari aðgerða til að taka á þeim. Þetta hlutfall er hærra eða 83 prósent, í lág- og millitekjuríkjum þar sem búast má við að áhrif loftslagsbreytinga verði verst.

58% vilja meiri hlustun

Að meðaltali töldu 58 prósent ungmenna á aldrinum 15-24 ára að mjög mikilvægt væri fyrir þjóðarleiðtoga að hlusta á börn.

71% vilja jafnrétti fyrir LGBTQ+ samfélagið

Ungt fólk sýndi meiri stuðning við réttindabaráttu LGBTQ fólks. En 71 prósent þeirra sagði mikilvægt að koma fram við þau á jafnréttisgrundvelli á meðan aðeins 57 prósent þeirra eldri svaraði á þann hátt.

77% nota internetið daglega

Hér sést kynslóðabilið glögglega en 77 prósent þeirra sem yngri eru sögðust nota internetið daglega á meðan það var aðeins 52 prósent þeirra sem komnir eru yfir fertugt.

45% nota samfélagsmiðla til upplýsingaöflunar

Þegar spurt var að hvaða miðil fólk notaði til afla sér upplýsinga sést hvað mesti munurinn á milli kynslóða. 45 prósent yngri kynslóðarinnar sagðist nota samfélagsmiðla til upplýsingaöflunar á móti aðeins 17 þeirra eldri. Þau sem komin eru yfir fertugt eru líklegri til að nota sjónvarpið til að uppfæra sig um líðandi stund og líklegri en þau sem yngri eru til að treysta á hefðbundnari miðla svo sem útvarp og dagblöð.