skýrsla verkfræðistofunnar Verkís um framkvæmdir og mygluvanda í Fossvogsskóla var gerð opinber í vikunni. Enn er mygla í skólanum og mistök hafa verið gerð við mikilvægar endurbætur. Börnin kljást enn við veikindi.

Undanfarin tvö ár hafa verið tekin sýni í fjórgang vegna veikinda nemenda og myglu í skólanum og enn eru hið minnsta tíu börn veik og sum alvarlega. Komið hefur í ljós að mistök voru gerð við nýtt þak í vesturhluta skólans árið 2019 og hluta af rakavarnarlagi vantaði. Þá var gert við þakið sem þó lak enn eftir viðgerðina og á að bæta úr því nú. Mikið af myglunni er í þakrými í vesturhlutanum. Myglan er viðvarandi á tilteknum stöðum í skólanum þrátt fyrir meiriháttar og endurtekin þrif í skólanum.

Skýrsla Verkís var unnin fyrir skóla – og frístundaráð Reykjavíkurborgar. Í henni er m.a. farið yfir sýnatökur, niðurstöður þeirra, framkvæmdir til bóta og nær hún yfir feril málsins aftur til ársins 2019.

„Mitt barn fer ekki inn í neitt af þessum rýmum sem tekin voru sýni úr að þessu sinni“, segir Sigríður Ólafsdóttir foreldri barns sem hefur verið veikt í Fossvogsskóla. Um skýrslu Verkís segir hún; „Það eru nokkrir hlutir þarna sem eru verulega sláandi. Það virðast ekki hafa verið tekin sýni nema í einum hluta skólans, bara vesturálmunni og einni stofu í miðjunni“, bendir hún á. Barn hennar sé að veikjast annars staðar í húsinu og þar vanti nýjar sýnatökur sem hafi verið lofað að ráðast í.

„Það er ótrúlegt að taka ekki sýni allstaðar þar sem börn hafa verið að veikjast“, segir Sigríður. En í þeim sýnum sem hafa verið tekin finnast verulega skaðlegar myglur, og er ein versta tegundin svonefnd kúlustrýnebba og er oft nefnd í niðurstöðum Náttúrfræðistofu Íslands (NÍ) sem greindi sýnin. Upplýsingar til foreldra eru litlar. „Þetta er eitthvað ósýnilegt fólk sem við fáum aldrei að tala við en skólaráðið reynir sitt“, segir Sigríður en ábygðin liggur hjá Reykjavíkurborg sem er eigandi hússins og Verkís sem sér um sýnatökur, úttektir og framkvæmdir.

Mynd/Úr skýrslu Verkís

Sýnin frá í september í fyrra sýndu að slæmar tegundir voru í skólanum s.s. sveppaeitrandi myglutegundirnar Litafrugga og Kúlustrýnebba. Þá var farið í framkvæmdir sem dugðu ekki og börnin héldu áfram að vera veik. „Okkur var sagt í september að húsnæðið yrði þrifið vel þrisvar til fjórum sinnum og svo endurteknar sýnatökurnar í desember“, segir Sigríður.

Úr snertiskálum sem notaðar eru í sýnatöku. Þar sjást m.a. kúlustrýnebba og litafrugga ásamt annari gró og myglu.
Mynd/Nátturfræðistofnun Íslands

Úr 15 sýnum í desember fannst mygla enn á sömu stöðum og fyrr eða annað hvort í vestuhlutanum eða miðhluta hússins en ekki var farið víðar um skólann. Í niðurstöðum NÍ er tekið fram að „varasöm“ og hin eitrandi myglutegund litafrugga hafi fundist í 27 sýnum. Þar segir um vesturloftið að 18 grænar myglur með græna gróhausa hafi fundist þar, einnig töluverður fjölda hraðvaxta gulmygla og krókstrýnebba. Sú síðastnefnda telst „varasamur sveppur innanhúss“. Í sýnunum fundust að auki mosagrænar myglur, tegund svartfruggu og grámygla.

Ranglega sagt að talað sé við foreldrana

Sigríður segir að talsmenn skóla-og frístundaráðs lýsi yfir að verið sé að tala við foreldrana en það sé ekki satt. „Við foreldrar veiku barnanna höfum fengið eitt fimmtán mínútna símtal í október síðastliðnum frá skólastjórnendum þar sem var verið að spyrja hvað heilsugæslan gæti gert fyrir okkur. Engu hefur verið fylgt eftir. Undir þetta tekur Björn Steinbekk, foreldri barns sem veiktist. Hann segir það hafa stungið í augun að í skýrslu Verkís sé sífellt verið að að tala um samráð: „Þar er ítrekað haldið fram að það sé samráð við foreldrana sem hefur bara ekkert verið, segir hann.

Borgin hefur varið um 500 milljónum í framkvæmdir vegna skólans. „Það sem hefur verið gert hefur verið gert illa. Þegar talað um alla peninga sem hefur verið varið í þetta þá er þeim illa varið,“ meinar Sigríður.

Þá hafa foreldrar veiku barnanna rætt við Umboðsmann barna og umboðsmann borgarbúa með engum árangri.

Spurt um ábyrgðina

„Hver ber ábyrgð á þessu?“, spyr annað foreldri sem vill ekki láta nafn síns getið. Framundan er að laga aftur vesturþakið og til stendur að taka aftur sýni í júní næstkomandi. „Við stöndum enn í sömu sporunum. Það hjálpar börnunum ekkert að skólinn verði kominn í lag eftir, eitt eða tvö ár. Skóla- og frístundasvið hefur aldrei haft nein úrræða nema að vísa á heilsugæsluna eins og hún eigi að leysa húsnæðisvanda“, segir foreldrið. „Það virðist enginn ná að tala við kjörna fulltrúa um þetta og það er enginn hreinlega að hugsa um börnin“, bætir hann við.

Mynd/Vilhelm Gunnarsson

„Sonur minn er búinn að vera veikur og frá skóla í meira og minna þrjár vikur, með mikla kviðverki, óglatt og með höfuðverk,“ segir Sólrún Dröfn Björnsdóttir móðir drengs í skólanum. „Yfirlýsingin í gær frá skólanum um að hann og yfirstjórn skólamála í borginni séu í samskiptum við foreldrana er ekki rétt“, segir hún. „Það sem maður óttast mest er hvað þetta gerir börnunum og starfsfólki til lengri tíma“, bætir Sólrún við og hún fái engin svör þegar hún hafi samband við skólann.

Vitneskjan var í janúar

Vitað er til að nokkur börn hafa skipt yfir í aðra skóla eftir að veikindin létu kræla á sér í byrjun árs 2019. Hún gagnrýnir einnig að gögnin hafi verið til strax í janúar en fyrst kynnt núna, þegar vitað var í janúar að enn sé myglugró í húsinu.

Dæmi eru um að börn fái sýkingar í augun og mikinn höfuðverk, magakvalir, óútskýrð útbrot og jafnvel blóðnasir. Þá vitna foreldrar um að börnunum líði betur um helgar þegar þau eru ekki í skólanum.

Ingibjörg Ýr Pálmadóttir skólastjóri hefur ekki svarað skilaboðum um hvort til standi að funda með foreldrum um efni skýrslunnar og það sem fram kom á lokuðum fundi á þriðjudag í skólanum þar sem efni hennar var kynnt. Ekki hefur náðst talsamband við deildarstjóra skóla-og frístundarsviðs þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og var hann fjarri vinnu rétt fyrir helgina.

Mynd/Ernir Eyjólfsson