Sótt­varna­læknir fer í nýjum pistli á co­vid.is yfir nokkrar á­stæður þess af hverju for­eldrar og for­ráða­menn barna á aldrinum fimm til 11 ára ættu að þiggja bólu­setningu fyrir þeirra hönd í næstu viku þegar bólu­setningar­á­tak aldurs­hópsins byrjar.

Hann segir að tveir skammtar af bólu­efni Pfizer veita um 90 prósenta vörn gegn smiti af Delta-af­brigði kórónu­veirunnar sem er á­líka vörn og þegar full­orðnir hafa þegið þrjár sprautur af bólu­efni en enn greinast hér á landi um 100 til 120 smit á hverjum degi af Delta, og er Delta-af­brigðið ríkjandi í smitum á meðal barna. Það kom fram á upp­lýsinga­fundi al­manna­varna í dag.

„Enn sem komið er er ekki vitað um al­var­leika smita af völdum ó­mícron af­brigðisins hjá börnum á þessum aldri en þar sem delta af­brigðið er enn í mikilli út­breiðslu þá getum við búist við að sjá al­var­legar af­leiðingar af þess völdum. Bólu­setning hjá full­orðnum verndar hins vegar gegn al­var­legum veikindum af völdum af­brigðisins og miklar líkur að verndin hjá börnum sé ekki síðri,“ segir Þór­ólfur og að þótt svo að ekki liggi enn fyrir endan­legar niður­stöður um virkni bólu­setningar barna gegn Omíkron-af­brigðinu þá séu vís­bendingar um að virknin sé enn betri en hjá full­orðnum, en sam­kvæmt rann­sóknum veita þrjár sprautur góða vörn gegn al­var­legum veikindum Omíkron hjá full­orðnum.

Þór­ólfur bendir á að þótt svo al­var­leg veikindi vegna Co­vid-19 séu sjald­gæf hjá börnum þá geti þau átt sér stað.

„Bólu­setning hjá ung­lingum dregur veru­lega úr hættu á al­var­legum veikindum, eins og hjá full­orðnum. Ekkert barn á aldrinum 5-11 ára hefur enn sem komið er verið lagt inn á sjúkra­hús hér á landi vegna CO­VID-19 en í Banda­ríkjunum og Evrópu hafa um 0,6% barna með ein­kenni vegna stað­fests smits af völdum delta af­brigðisins þurft á inn­lögn að halda og 10% þeirra þurft að leggjast inn á gjör­gæslu­deild,“ segir Þór­ólfur í pistli sínum og bendir auk þess á að al­var­legar auka­verkanir eftir bólu­setningu séu marg­falt sjald­gæfari hjá 5 til 11 ára börnum en al­var­legir fylgi­kvillar eftir CO­VID-19 þegar um er að ræða smits af völdum delta af­brigðisins.

Forsjáraðilar þurfa að samþykkja, hafna eða bíða

Þá bendir Þór­ólfur á að bæði ein­angrun og sótt­kví hefur mikil og truflandi á­hrif á skóla­göngu og fé­lags­líf barna á þessum aldri og að það megi koma veg fyrir slíkt, með veru­legu leyti, með því að þiggja bólu­setningu.

„Með bólu­setningu barna má koma í veg fyrir út­breiðslu smita innan skóla, inn í fjöl­skyldur og til við­kvæmra hópa,“ segir Þór­ólfur.

Í pistlinum fer hann einnig yfir fram­kvæmd bólu­setningarinnar en for­sjár­aðilar barna á þessum aldri munu fá skila­boð með strika­merki fyrir hvert barn á þessum aldri þar sem þau geta sam­þykkt, hafnað eða á­kveðið að bíða með bólu­setningu barnsins. Báðir for­eldrar eða for­sjár­aðilar hvers barns þurfa að sam­þykkja annar er barnið ekki bólu­sett. For­sjár­aðilar þurfa að fylgja barninu í bólu­setningu. Nánari út­listun á fram­kvæmdinni er hér.

Bólu­setningin er skipu­lögð af heilsu­gæslunni á hverjum stað og verður annað hvort fram­kvæmd þar eða í láns­hús­næði sem verður lík­lega skóla­hús­næði á hverjum stað. Kennsla fellur niður þá daga sem bólu­setningin fer fram í skólum og boðað til hennar með slembi­úr­taki svo erfiðarar verði að greina ef ein­hver á­kveður ekki að þiggja bólu­setningu fyrir barnið sitt. Nánar um þetta hér á vefnum co­vid.is og hér.

Hér er efni sem unnið var af Þroskahjálp um Covid-19 bólusetningu á auðlesnu máli.