Björn Þorláksson
bth@frettabladid.is
Föstudagur 27. janúar 2023
05.00 GMT

Mörg börn frá Eyjum upp­lifðu sárs­auka, bar­smíðar, ein­elti og nei­kvætt við­horf eftir eld­gosið 1973 af hálfu fólks uppi á landi. Tabú að reyna að koma að reynslu sem yfir­skyggði hetju­dáðir og sam­stöðu. Sögu­kennari segir margt minna á um­ræðu um flótta­fólk í dag.

Mikill fjöldi Eyja­fólks hefur opnað sig um sára lífs­reynslu á barns­aldri þegar þúsundir Eyja­manna hröktust upp á land eftir gosið 1973.

Margir Eyja­menn segja tíma­bært að varpa ljósi á aðrar sögur en þær sem sagðar hafa verið af hetju­dáðum og sam­stöðu. Gísli Ingi Gunnars­son hóf um­ræðu á Face­book og virðist ljóst af við­brögðunum að fjöldi Eyja­barna eigi skelfi­legar minningar frá þessum tíma.

Bar­smíðar og á­reitni

„Ég bjó í Hvera­gerði og gat ekki leikið við önnur börn vegna þess að ég var við­laga­sjóð­s­pakk og var bara laminn,“ segir Gísli Ingi. Hann dregur þó ekki önnur börn til á­byrgðar heldur segir hann að nei­kvæð við­horf til Eyja­barna hafi orðið til við eld­hús­borð hinna full­orðnu í landi.

Sif Gylfa­dóttir er ein fjöl­margra sem taka undir orð Gísla. „Ég varð við­laga­sjóð­s­pakk og Vest­manna­eyingur og átti enga vini.“

Ein kona segist hafa verið kýld og kastað var í hana grjóti. Önnur ræðir káf og kyn­ferðis­lega á­reitni. Svo­kölluð skemmti­ferð til Noregs, þar sem börnin dvöldu sumar­langt eftir gosið án for­eldra, virðist einnig á köflum hafa snúist upp í mar­tröð fyrir suma þótt aðrir eigi góðar minningar um þá ferð.

Eyðileggingin í Vestmannaeyjum var gríðarleg.
Mynd/KristinnH

Vantar rödd í söguna

„Alveg ó­trú­legt að í öll þessi ár hef ég ekki séð mikið fjallað um hvernig börnin frá Eyjum komu út úr þessu öllu saman, rifin upp með rótum,“ segir Díana Aðal­heiðar­dóttir.

Alda Jóhanna segir: „Þetta var mjög vondur tími í lífi mínu, mikið um flutninga á Reykja­víkur­svæðinu og enda­laus skóla­skipti. Ein­elti sem birtist í út­skúfun, ljótum orðum og líkam­legu of­beldi.“

Haf­dís Ást­þórs­dóttir tekur enn dýpra í árinni: „Ég hef ein­mitt verið að hugsa þetta undan­farna daga og hef spurt flest alla sem ég hef hitt sem muna eftir þessum tímum, hvort þau upp­lifðu þetta slæma við­mót frá Ís­lendingum, og allir hafa svarað því játandi … „þurfa­lingar“ og „við­laga­sjóð­s­pakk“.

Helsta dáðin að þrauka

Sigur­laug Lára skrifar: „Fyrir mér er elju­semi og hetju­dáðir Vest­manna­eyinga ekki síst fólgin í að lifa af þennan tíma, þrauka alla ó­vissuna, allt flakkið, mót­lætið og ein­eltið.“ Hún segir einnig: „Og ég skil svo vel að fólk hafi ekki getað beðið með að fara aftur heim þó þar væri allt á kafi í ösku, dimmt og drunga­legt því það var senni­lega himna­ríki á jörð miðað við við­mótið sem margir fengu að upp­lifa uppi á landi.“

Anna­beta Gryt­vik segir: „Oft var bara kallað á mann að drulla okkur til Eyja aftur, fengum allt frítt, fötin sem við vorum í og matinn og værum bara við­laga­sjóðs-aumingjar. Ég var bara 8 ára stelpu­skott hálf­partinn á flækingi þannig á þessum tíma.“

Margir misstu heimili sín í gosinu árið 1973.
Fréttablaðið/GVA

Á­kveðin þöggun í gangi

Nokkrir skrifa um þöggun líkt og Emilía Borg­þórs­dóttir: „Já það hefur verið á­kveðin þöggun í gangi – allir björguðust og við getum verið þakk­lát fyrir það en allt of margir sem hafa ekki unnið úr sínum á­föllum.“

Sig­ríður Sigurðar­dóttir segist hafa setið undir eftir­farandi: „Drullaðu þér bara heim! Þið fáið allt frítt, hel­vítin ykkar! And­skotans þurfa­lingar!“

Annar íbúi segir: „Það var verið að draga fólk í dilka og þeir sem bjuggu í „gámum eða við­laga­sjóðs­húsum“ voru öðru­vísi. Það var lykt sem tengdist húsunum. Tjöru­pappír notaður til ein­angrunar í þökin og það var lykt sem fylgdi.“ Sumt af for­dómunum hafi verið af sama meiði og gagn­vart þeim sem bjuggu í bröggum í Reykja­vík.

Sagðir komnir á spenann

Ragnar Óskars­son, 75 ára sögu­kennari í Eyjum, segist þekkja þessa um­ræðu vel en hann telur þó að mjög margt hafi verið til fyrir­myndar.

„Ég bjó í Reykja­vík á þessum tíma og heyrði oft nei­kvætt tal um Vest­manna­eyinga, að þeir væru komnir á spenann og væru á fram­færi fólks sem hefði varla efni á að fram­fleyta sjálfu sér,“ segir Ragnar.

Hann segir margar fjöl­skyldur hafa opnað hús sín fyrir Eyja­fólki á þessum tíma. Þrengsli hafi skapast og alls konar „núansar“ komið upp.

„Flestir sem ég hef talað við bera þó lof á mót­tökurnar og allt sem fylgdi.“

Ragnar segir að við­horf þessa tíma hafi verið þau að venju­legir Ís­lendingar þyrftu mikið að hafa fyrir því að koma upp þaki yfir höfuðið. Mörgum hafi blöskrað meintur for­gangur Eyja­fólks í hús­næðis­málum.

Ragnar Óskars­son, sögukennari.
Mynd/BjarniSigurðsson

Líkist um­ræðu um flótta­fólk

„Sumum fannst eins og verið væri að mylja undir Vest­manna­eyinga,“ segir Ragnar. Hann segir að hafa beri í huga að kjör fólks á Ís­landi hafi ekki verið neitt til að hrópa húrra fyrir. „Flutningurinn bættist við vanda­mál í ís­lensku sam­fé­lagi sem voru grasserandi á þessum tíma svo sem mikla verð­bólgu. Vest­manna­eyingar kostuðu ríkið tölu­verðar fjár­hæðir og þessi um­ræða minnir mig á þegar við erum að taka á móti flótta­fólki. Það eru alltaf raddir í landinu sem segja: Við getum ekki séð um okkur sjálf en samt erum við að taka á móti flótta­fólki.“

Engin á­falla­hjálp til

Ragnar segir að sér líði eins og þessi saga hafi ekki verið gerð upp að fullu. Hann tekur fram að hann hafi ekki sjálfur verið í þeim hópi sem þurfti að flytja.

„Þegar þetta gerðist er engin á­falla­hjálp. Gott fólk tekur á móti gestunum en svo eru menn komnir tvist og bast. Ef svona at­burðir yrðu núna væri á­falla­hjálpar­teymi kallað til að að­stoða fólk við að lifa með þessu, en þarna var því ekki til að dreifa.“

Enn koma margir Vest­manna­eyingar saman 23. janúar á hverju ári, þeir ganga saman og eru með skipu­lagða dag­skrá.

„Ég segi að á þessum sam­komum er fólk enn að leita í það sem mætti kalla sam­hæfða á­falla­hjálp. Það finnur hlýjuna hvert frá öðru,“ segir Ragnar.

Margt bendir til, að sögn Ragnars, að það að tala upp­hátt um nei­kvæða upp­lifun í landi hafi nánast orðið tabú. Vest­manna­eyingar hafi ekki viljað ræða vanda­málin, kannski af ótta við að verða taldir van­þakk­látir þeim sem þeir áttu allt undir um tíma.

Þá segir Ragnar ferðina til Noregs hafa verið barn síns tíma. Til­gangurinn hafi verið að losa börnin úr hrika­legum að­stæðum en börnin hafi verið for­eldra­laus og einkum yngri börnum hafi, að minnsta kosti sumum hverjum, liðið illa.

Aug­ljóst er að sögn Ragnars að margt sem átti sér stað fyrir hálfri öld yrði með öðrum hætti nú.

Athugasemdir