Mynd­band sem sýnir 46 unga­börn stað­göngu­mæðra föst í Kænu­garði í Úkraínu hefur farið eins og eldur um sinu á netinu. For­eldrar barnanna hafa ekki getað sótt þau vegna út­göngu- og ferða­banns sem er í gildi vegna CO­VID-19 far­sóttarinnar.
Börnin eru öll stað­sett í hótel­her­bergi í höfuð­stað Úkraínu og bíða for­eldra sinna sem koma frá Bret­landi, Banda­ríkjunum, Frakk­landi, Ítalíu, Spáni, Mexíkó og fleiri löndum.

Bíða barnanna

Foreldrarnir hafa borgað upphæð á milli einnar til tíu milljóna fyrir þjónustu fyrirtækisins, BioTexCom, sem sérhæfir sig í að hjálpa fólki við að hefja fjölskyldu með aðstoð staðgöngumóður.

Á meðan heimsfaraldurinn geisar hefur starfsfólk svokallaðrar „barnaverksmiðjunnar“ séð um að annast hvítvoðungana. Landamæri Úkraínu hafa verið lokuð frá því 27. mars síðastliðinn.

Starfsfólk fyrirtækisins annast nú hvítvoðungana.
Mynd/Biotexcom

Börn orðin gæða vara

Embættismaður mannréttindaskrifstofu Úkraínu, Liudmila Denisova, segir myndbandið staðfesta að kerfisbundin þjónusta staðgöngumæðra í landinu væri komin úr böndunum. „Staðgöngumæðrun er auglýst og framreidd eins og „gæða vara,“ skrifaði Denisova á samfélagsmiðlum.

Úkraína er eitt af fáum löndum í Evrópu sem hefur lögleitt staðgöngumæðrun og þykir því fýsilegur áfangastaður fyrir foreldra sem vilja kjósa þá leið.