Síðustu tuttugu ár hafa 30-40 prósent barna í Reykjavík ekki verið orðin læs í lok annars bekkjar. Hermundur Sigmundsson, prófessor við NTNU-háskóla í Noregi og Háskóla Íslands, segir nauðsynlegt að breyta þeim kennslu­aðferðum sem notaðar eru við lestur hér á landi.

Hermundur er frumkvöðull og stjórnandi verkefnisins Kveikjum neistann sem er samstarfsverkefni rannsakenda af Menntavísindasviði Háskóla Íslands, Samtaka atvinnulífsins, bæjaryfirvalda í Vestmannaeyjum og stjórnenda Grunnskóla Vestmannaeyja.

Verkefnið er langtímaverkefni þar sem nemendum í Vestmannaeyjum er fylgt eftir á grunnskólagöngu sinni. Þar er nemendum kenndur lestur, stærðfræði og náttúrufræði með nýjum kennsluháttum. Allir nemendur eru metnir reglulega og fá áskoranir, verkefni og kennslu við hæfi.

Öll börn sem luku fyrsta bekk í Grunnskóla Vestmannaeyja síðasta vor gátu lesið einstök orð eftir þátttöku í Kveikjum neistann. 96 prósent barnanna náðu að lesa setningar og 88 prósent þeirra gátu lesið samfelldan texta í lok skólaársins. Til samanburðar gátu 73 prósent norskra barna lesið einstök orð í lok fyrsta bekkjar samkvæmt norskri rannsókn.

„Við sjáum bara svart á hvítu að þetta er að virka. Við erum búin að kveikja neistann í Vestmannaeyjum,“ segir Hermundur. „Það voru ekki sum börn sem náðu viðmiði í lestri heldur öll börnin sem kláruðu fyrsta bekk. Nú höldum við áfram með þau í öðrum bekk og fyrsti bekkur bætist við,“ segir hann.

Spurður að því hvort hann telji að hægt sé að „kveikja neistann“ alls staðar segir Hermundur svo vera. Það vanti bara viljann. „38 prósent fimmtán ára unglinga á Íslandi eru ekki að ná grunnfærni í lesskilningi og stærðfræði, hversu lengi ætlum við að hafa þetta svona?“ spyr hann.

Hermundur segir börnin sem ekki nái færni í lestri ekki fá þá aðstoð sem þau þurfi í skólanum eða heima. „Og ef stuðningurinn er ekki til staðar heima þá þarf skólinn að grípa inn í,“ segir hann.

Samkvæmt lesfimiprófum Menntamálastofnunar hefur frá síðustu aldamótum um þriðjungur 15 ára nemenda verið undir lágmarksviðmiði í lestri. Lesfimipróf mæla fjölda lesinna orða á mínútu og segir Hermundur þau ekki réttu leiðina til að fylgjast með lestrarfærni barna samkvæmt fremstu fræðimönnum heims.

„Hann Óli sem er sjö ára á ekki að fá orðadæmi í stærðfræði ef hann kann ekki að lesa og hann á ekki heldur að fara í leshraðamælingu ef hann kann ekki að lesa. Núna er það þannig að Óli þarf að fara þrisvar á ári í leshraðamælingu og koma niðurbrotinn heim,“ segir Hermundur.

Hann segir að í Vestmannaeyjum sé lestrarfærni barnanna metin með stöðumati sem byggist á grunnþáttum lesturs, umskráningu og lesskilningi, í kjölfarið fái þau áskoranir við hæfi. „Þá fær Óli aðstoð með það að læra bókstafina en Bjarni sem kann að lesa getur valið sér bækur við hæfi á bókasafninu,“ segir Hermundur.

Á föstudaginn eftir viku fer fram málþing þar sem farið verður yfir verkefnið Kveikjum neistann. Bæði það sem vel gekk og það sem betur mátti fara að Hermundar sögn. „Ég hvet bara alla sem málið varðar að koma til Vestmannaeyja og kynna sér verkefnið, þetta er mjög brýnt.“