Heilbrigðisráðherra sendi í dag frá sér tilkynningu um að boðin verði almenn bólusetning gegn HPV veirunni til allra barna óháð kyni og jafnframt að innleitt verði nýtt breiðvirkara bóluefni sem veitir víðtæka vörn gegn krabbameini af völdum veirunnar.

Hingað til hefur verið notast við bóluefnið Cervarix sem Finnland og Noregur hafa einnig verið með í notkun. Svíþjóð og Danmörk hafa þó notast við breiðvirkara bóluefni sem gengur undir nafninu Gardasil og veitir breiðvirkari vörn gegn veirunni og mun Ísland nú hefja notkun á því við almennar bólusetningar barna af báðum kynjum.

Börnum verður nú boðin almenn bólusetning gegn HPV óháð kyni og verður notast við víðtækara bóluefni en áður.

Bólusetningar þáttaka mikilvæg

HPV veiran sem meðal annars veldur kynfæravörtum getur einnig valdið krabbameini en algengasta af völdum veirunnar er leghálskrabbamein. Hún getur þó einnig valdið krabbameini í ytri kynfærum, endaþarmi, munni og hálsi. Margar gerðir veirunnar valda þó engum einkennum.

Ávinningur af bólusetningu gegn HPV veirunni er oft mikill kemur þó yfirleitt ekki í ljós fyrr en 15-20 árum eftir að reglubundin bólusetning hefst. Því segir heilbrigðisráðuneytið að miklu máli skipti að bólusetningarþáttaka sé góð meðal barna. Bólusetning stúlkna gegn veirunni hófst árið 2011 og hefur þáttaka í henni verið í kringum 90% sem lofar mjög góðu til lengri tíma litið.