Dæmi eru um að foreldrum og aðstandendum sé meinað að fara með ungabörn sín inn í kjörklefann, þau þurfi að bíða fyrir utan á meðan kosið er.
Jóhann Skagfjörð Magnússon, fjölskyldumaður og skólastjóri, fór að kjósa utan kjörfundar í gær með þriggja mánaða gamlan son sinn í för. Honum var tjáð á staðnum að sonurinn þyrfti að bíða fyrir utan kjörklefann á meðan hann fyllti út seðilinn.
„Ég var með son minn í bílstólnum, þannig að hann var bara í bílstólnum fyrir utan kjörklefann,“ segir Jóhann. Hann hafi ekki nennt að gera vesen úr þessu á staðnum þar sem sonur hans rólegur í stólnum á því augnabliki, hins vegar hafi honum þótt þetta hallærislegt. „Ég get ímyndað mér að í einhverjum tilfellum sé þetta erfitt fyrir fólk.“
Kaus í gær. Var með 3 mánaða son minn með mèr. Var skipað að skilja hann eftir fyrir utan kjörklefann meðan èg stimplaði kjörseðilinn. Spes vinnubrögð. #kosningar2021
— Jóhann Skagfjörð (@joiskag) September 22, 2021
Sigríður Kristinsdóttir, sýslumaður á höfuðborgarsvæðinu, segir lögin skýr. „Það stendur skýrt í lögunum að þetta eru leynilegar kosningar, að fólk eigi að kjósa í einrúmi. Það eru lögin og þú ert ekki í einrúmi þegar þú ert með barn með þér.“
Aðspurð hvort einhverjar undantekningar séu gerðar segir hún svo ekki vera. Það megi ekkert gerast sem er talið vera á gráu svæði. „Þú verður að vera í einrúmi í klefanum. Þannig að þú þarft að gera ráðstafanir áður en þú kemur ef þú ert með barn. Fá einhvern til að koma með þér eða setja barnið í pössun á meðan,“ segir Sigríður.
Hafsteinn Einarsson doktorsnemi setti færslu inn á Twitter í dag. Þar segir hann móður sína hafa farið að kjósa utan kjörfundar fyrr í dag með barnabarni sínu sem ekki sé orðið tveggja ára.
Henni hafi verið tjáð að barnið þyrfti að bíða fyrir utan kjörklefann. „Skil að það þurfti að fara að bókstaf laganna, en einhvers staðar þarf að draga mörkin og láta heilbrigða skynsemi ráða för,“ segir Hafsteinn
Mamma fór að kjósa utankjörfundar áðan og var sagt að barnabarnið hennar, sem ekki orðið tveggja ára, þyrfti að bíða fyrir utan kjörklefann. Skil að það þurfi að fara að bókstaf laganna, en einhversstaðar þarf að draga mörkin og láta heilbrigðri skynsemi ráða för.
— Hafsteinn Einarsson (@hafsteinneinars) September 23, 2021