Ekkert lát er á á­tökunum milli Ísrael og Palestínu en að minnsta kosti 24 Palestínu­menn, þar á meðal börn, létust þegar Ísraelar skutu flug­skeytum á Gaza­svæðið í morgun. Að því er kemur fram í frétt AP um málið hefur ísraelski herinn boðað fimm þúsund við­bótar­her­menn í suður­hlutanum til að taka á á­tökunum.

Að sögn ísraelska hersins voru 15 af þeim sem létust í morgun hernaðar­menn og að sögn heil­brigðis­yfir­valda á Gaza voru níu börn meðal látinna. Ísraelski herinn stað­festi að þau hafi skotið á 130 staði á Gaza­svæðinu en gáfu ekkert upp um að meðal látinna væru níu börn. Rúm­lega hundrað Palestínu­menn særðust í á­rásunum.

Hernaðar­menn á Gaza skutu á sama tíma flug­skeytum að Ísrael en tals­maður ísraelska hersins sagði að um væri að ræða fleiri en 250 flug­skeyti, eitt sem lenti á fjöl­býlis­húsi þar sem sex særðust. Enginn virðist hafa látist í þeim á­rásum.

Tekist á um Austur-Jerúsalem

Loft­á­rásir Ísraela koma degi eftir að flug­skeytum var skotið að Jerúsalem frá Gaza­svæðinu í gær en Hamas sam­tökin höfðu gefið það út að þau myndu grípa til að­gerða ef lög­regla í Ísrael myndi ekki yfir­gefa svæðið í kringum Al-Asqa moskuna, sem er einn heilagasti staðurinn í Islam.

Þúsundir Palestínu­manna höfðu byrgt sig inni í moskunni fyrir Jerúsalem­daginn en lög­regla beitti meðal annars gúmmí­kúlum og tára­gasi til að koma þeim út. Hundruð Palestínu­manna særðust í á­tökunum og Ísraelar á­kváðu að af­lýsa há­tíðar­göngu sem átti að fara fram í til­efni Jerúsalem­dagsins.

Mikil átök hafa verið milli Ísrael og Palestínu síðast­liðna daga þar sem til stóð að Hæsti­réttur Ísrael myndi hefja mál­flutning um brott­flutning Palestínu­manna í Austur-Jerúsalem til að rýma fyrir ísraelskum land­nema­byggðum. Hundruð hafa þegar særst í á­tökunum en Hæsti­réttur hefur á­kveðið að fresta mál­flutningi í málinu.