Börn hafa orðið fyrir eitrunaráhrifum á reit þrjú í Vogabyggð og þurfa íbúar að loka gluggum þegar verkstæðin á jarðhæð opna. Illa gengur að fá einhver svör frá annars vegar borginni um deiliskipulag og hins vegar Heilbrigðiseftirlitinu um mengandi iðnað.

Ástandið á reit þrjú er sagt með öllu óásættanlegt samkvæmt bréfi sem íbúaráð Laugardals tók fyrir rétt áður en páskar gengu í garð.

„Systkinin hafa fengið ertingareinkenni í húð og slímhúð sem hefur verið sett í samband við mikla lykt af terpentínu og asetoni sem berst frá bílaverkstæði á jarðhæð hússins sem þau búa í. Saga þeirra varðandi þetta finnst mér ótvíræð hvað þetta varðar,“ segir barnalæknir um börnin.

Börnin fluttu með foreldrum sínum á reitinn fyrir skömmu en margir íbúar á reitnum búa nálægt mengandi iðnaði. Íbúum er nóg boðið og sendu íbúaráði Laugardals harðort bréf, enda átti að vera búið að deiliskipuleggja hverfið og er það auglýst nánast sem ein stór paradís.

Í bréfinu segir að starfsemi á neðstu hæðum við Súðarvog taki ekkert tillit til gangandi umferðar og hertaki gangstéttir undir úrgang frá verkstæðum. Þá séu til sannanir um að fyrirtækin séu að skola eiturefnum ofan í niðurföll – sem rúlla svo út í sjó.

Þorbergur Halldórsson, formaður húsfélagsins Súðarvogs 44-48, sendi bréfið en hann keypti á reitnum árið 2009. „Börnin sem þarna um ræðir fluttu í hverfið fyrir faraldurinn. Ég varð var við að það var verið að sprauta bíla á neðstu hæðinni hjá þeim í algjöru leyfisleysi. Það tók allt of langan tíma að stoppa það þrátt fyrir að verkstæðið væri ekki með nein leyfi. Heilbrigðiseftirlitið virkaði engan veginn því loksins þegar eitthvað var gert voru börnin komin með útbrot,“ segir Þorbergur.

Hann segir að töluvert sé komið af löglegum íbúðum í hverfinu en einnig er að finna þar einhverjar ólöglegar. Þá sé allur iðnaður sem þarna sé að finna slíkur að hann geti ekki uppfyllt neinar nútímakröfur um mengunarvarnir. „Það lyktar upp úr klósettum hjá mér því það er allt sett í niðurföllin. Heilu plönin, þó þau séu full af olíu eða glussa, eru spúluð niður í niðurföllin sem hafa enga olíusíu eða neitt sem nútíminn gerir kröfu um.“

Þorbergur hefur verið í samskiptum við borgina fyrir hönd íbúa í nokkur ár en kemur alls staðar að lokuðum dyrum. „Við erum að fara fram á að það verði klárað að deiliskipuleggja og ef það á að vera einhver svona iðnaður hér áfram þá þarf að laga það húsnæði þannig það sé ekki allt sett ofan í ræsi.

Þetta er frábært framtíðarsvæði og þess vegna skil ég ekki borgina að láta þetta fara svona. Hér er allt stopp því það veit enginn hvað má og hvað ekki. Verður þetta áfram iðnaðarpláss eða breytast bilin í íbúapláss?

Það er ótrúlegt að þetta fái að viðgangast árið 2022,“ segir Þorbergur.

Sjálfur þarf hann að loka gluggum þegar sprautuverkstæði fyrir neðan hann opnar. „Þá er ólíft vegna lyktar. Það er engin loftræsting á verkstæðinu önnur en hurðin til að aka bílum inn og út. Það finnst heilbrigðiseftirlitinu í lagi og er látið viðgangast.

Við erum búin að vera þolinmóð og sýna mikla þolinmæði en þetta er komið út fyrir eitthvað sem er skiljanlegt,“ segir Þorbergur, en íbúa­ráð Laugardals bókaði þakkir fyrir kynninguna og beindi því til skipulagsfulltrúa og Heilbrigðiseftirlits að svara erindinu.