Hjólhýsi ungrar fjölskyldu frá Bolungarvík var rústað og öllu stolið steini léttara á tjaldstæðinu á Víðistaðartúni í Hafnarfirði í gær milli þrjú og níu um daginn. Hjónin Bjarni Þórarinn Birgisson og Petrea Sigmundsdóttir voru ásamt börnum sínum í bæjarferð til að sækja sjúkrahús, en Petrea og dóttir hennar eru báðar langveikar.

„Ég var í lyfjagjöf og dóttir mín í blóðprufum,“ segir Petrea í samtali við Fréttablaðið. Mæðgurnar eru í reglulegu eftirliti á spítalanum vegna veikinda sinna en þær glíma báðar við ristilssjúkdóma. Eftir að hafa eitt lungann af deginum á Landspítalanum sneri fjölskyldan aftur á tjaldsvæðið og hugðist heyra í Bjarkarlund til að eiga þar góða stund.

Hjólhýsið í rúst

„Þegar við komum að hjólhýsinu sjáum við að hurðin er opin upp á gátt,“ segir Petrea og bætir við að maðurinn hennar gangi alltaf úr skugga um að læsa á eftir þeim. Inni í hjólhýsinu var allt á rúi og stúi og búið að mölbrjóta aftari rúðuna. „Það var búið að tæta allt úr öllum skápum og ganga þarna berserksgang.“

Petrea hafði samband við lögreglu á meðan Bjarni athugaði hvort eitthvað vantaði í hjólhýsinu. Lögreglu bar brátt að garði en ljóst var að lítið var eftir í hjólhýsinu.

„Það var búið að taka allt, ferðatöskuna með fötunum okkar, skiptitöskuna með heilsufarsbókum og bólusetningarskírteinum barnanna og allt sem við þurfum til að sinna langveikri dóttur okkar.“ Engin lyf voru skilin eftir. „Meira að segja sprautupenni dóttur minnar, sem inniheldur líftæknilyf, var horfin þrátt fyrir að hann nýtist engum nema henni, en hún átti að fá hann um kvöldið.“

Aðalheiður og Birgir þreytt næturkeyrslunni til Bolungarvíkur.

Öllum stómavörum stolið

Einnig var búið að taka allar stómavörur sem Petrea þarfnast til að geta sinnt daglegu lífi. Hún þarfnast sérstakra stómavara þar sem hún glímir einnig við kviðslit og gat því ekki orðið sér út um nýjan stómapoka. Draumurinn um að elta sólina með fjölskyldunni á leiðinni heim var úti.

Fjölskyldan eyddi allri nóttinni í að keyra til Bolungarvíkur sem er 500 kílómetra leið. „Sem betur fór lak stómaplatan mín ekki þar sem ég hafði engar stómavörur og engin föt til skiptanna.“

Andlegt tjón ómetanlegt

Mesta tjónið segir Petrea þó vera falið í því að búið er að eyðileggja hjólhýsið fyrir fjölskyldunni. „Það átti að nýtast fjölskyldunni sem einskonar griðastaður fyrir góðar stundir en börnin þora ekki einu sinni að horfa á hjólhýsið lengur.“ Börnin séu dauðhrædd og þurftu hjónin að fara með hjólhýsið út að höfn í nótt til að róa litla huga.

„Þau eru í taugaáfalli eftir þetta. Á leiðinni heim þorðu þau ekki út úr bílnum þegar við vorum að stoppa til að pissa þau voru svo hrædd.“ Petrea segir að börnin hafi kennt sjálfum sér um að þetta hafi komið fyrir og haldið að lögreglan væri að koma til að ná í þau. „Ég útskýrði að lögreglan væri að koma til að hjálpa okkur og að þau hefðu ekkert gert.“

Blóðug handaför skilin eftir

Systkinin hafa ekkert viljað fara út í dag og vilja að allir gluggar séu læstir í húsinu. „Þau spyrja í sífellu hver vegna þetta hafi gerst, af hverju einhver hafi brotið gluggann, af hverju kjólum og lyfjum hafi verið stolin.“

Eftir að fjölskyldan kom til Bolungarvíkur gerðu þau nánari úttekt á hjólhýsinu. Við það kom í ljós að blóð hafi víða verið skilið eftir. „Blóðug handaför og sængurföt blöstu við okkur.“ Í kjölfarið kom lögregluþjónn úr umdæminu og tók sýni sem verða send í greiningu. „Hann kembdi hjólhýsið hátt og lágt.“

Einn liggur undir grun

Í símtali sem Petrea fékk frá lögreglunni á Höfuðborgarsvæðinu fyrr í dag var henni tjáð að einn maður lægi undir grun. „Ég lýsti þá nákvæmlega þeim hlutum sem var stolið og vonast til að þeir finnist við húsleitina.“ Hún vonast eftir að lögregla nái sökudólgnum í bráð en það bæti þó ekki fyrir andlegt tjón.

Petrea biðlar til fólks sem býr í návígi við tjaldsvæðið á Víðistaðatúni að athuga grunsamlegar mannaferðir á myndavélum sínum. Einnig má athuga hvort vínrauður eða dökk rauður fólksbíll sjáist upptökunum. Íbúar eru hvattir til að hafa samband við lögreglu verði þau vör við álíka bíl.