Mikil viðbrögð hafa orðið við fréttaskýringu Fréttablaðsins um að fjöldi íslenskra barna hafi ekki efni á íþrótta- og tómstundastarfi. Þörf á hækkun frístundastyrks er rauður þráður í umkvörtunum foreldra sem borist hafa blaðinu.

Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar hjá Reykjavíkurborg, segir ekki útilokað að frístundastyrkurinn verði hækkaður. Umbætur á frístundakortinu séu til stöðugrar skoðunar.

„Það er sláandi að lesa þessa fréttaskýringu Fréttablaðsins og mjög slæmt ef sum börn upplifa sorg,“ segir Hjálmar.

„En þetta setur líka þær kvaðir á íþróttafélögin að stilla sinni gjaldskrá og ferðalögum í hóf þannig að enginn sé skilinn eftir út undan,“ bætir hann við.

Í fréttaskýringunni kom fram að innflytjendur, atvinnulausir foreldrar og öryrkjar væru sérlega viðkvæmir fyrir vaxandi kostnaði. Keppnisferðir eru eitt dæmi um slíkt, þar sem bjargir foreldra til að safna fé eru mjög misgóðar.

Hjálmar segir að heilt yfir telji hann að vel hafi tekist til með frístundakortið. Nýting þess sé allt að 90% í sumum hverfum borgarinnar. Þó er ekki sömu sögu að segja um alla hluta borgarinnar.

„Nýtingin er minnst í Breiðholti, um sextíu prósent,“ segir Hjálmar.

Vegna þeirrar staðreyndar hefur borgin efnt til átaks til að auka nýtingu frístundakortsins í Breiðholti.

„Einn liður til að auka jafnræði er að börn í fyrsta og öðrum bekk í Breiðholti fá 80.000 krónur á ári til að stunda íþróttir,“ segir Hjálmar. Algengt er að frístundastyrkur sveitarfélaga sé 50.000 krónur.

Kolbrún Baldursdóttir sálfræðingur og borgarfulltrúi Flokks fólksins, segir að frístundastyrkurinn sé ekki bara of lágur heldur séu reglur um hann of stífar.

Í fréttaskýringunni kom fram að hægt væri að nota frístundakortið til að greiða fyrir frístundaheimili. Kolbrún segir það bagalegt og því þurfi að breyta.

„Borgin verður að trygga að barnið eitt geti notað kortið og að foreldrum sé boðin aðstoð til að greiða frístundaheimili,“ segir Kolbrún.