Upp­á­koma fyrir utan fé­lags­mið­stöðina 100 og 1 í gær­kvöldi varð til þess að börn í Austur­bæjar­skóla urðu hrædd og upp­lifðu ó­þægi­legar að­stæður.

Sam­kvæmt tölvu­pósti frá Frið­meyju Jóns­dóttur, for­stöðu­konu 100 og 1, sem sendur var til for­eldra og barst Frétta­blaðinu var „hópa­myndun á skóla­lóðinni og upp­á­koma sem endaði með pústrum milli aðila fyrir ofan skóla­lóðina“.

Frið­mey vildi ekki tjá sig nánar um at­vikið í ljósi þess að verið sé að vinna að málinu með for­eldrum og aðilum er það varði. Skóla­stjóri Austur­bæjar­skóla og for­maður for­eldra­fé­lagsins vildu heldur ekki tjá sig um málið og vísuðu bæði á Frið­meyju.

Þá kemur einnig fram í tölvu­pósti Frið­meyjar að mál sem þessi séu ekki eins­korðuð við Austur­bæjar­skóla „heldur er menning sem við starfs­menn fé­lags­mið­stöðva Reykja­víkur höfum miklar á­hyggjur af og þarf að stoppa“.

Að sögn Jóhanns Karl Þóris­sonar, að­stoðar­yfir­lög­reglu­þjóns hjá lög­reglunni á höfuð­borgar­svæðinu, var lög­regla kölluð til Austur­bæjar­skóla eftir at­vikið en allir hafi verið farnir þegar hún kom á svæðið.

Jóhann Karl segir að ekki hafi verið um eigin­leg slags­mál að ræða heldur hafi verið „hiti í ung­lingum og hótanir um slags­mál“ og hann viti ekki um nein meiðsl.