Íbúar í Árborg verða fyrir tíðum röskunum vegna bilana í hitaveitukerfi á svæðinu, sem rekja má til stofnlagnar. Í gær voru börn í sveitarfélaginu send heim úr skóla vegna kulda í kennslubyggingum.

Íbúar bera sig illa yfir skorti á upplýsingum af hálfu Árborgar en veitustjóri vísar til bilunar í sms-tilkynningakerfi. Í gær, mánudag, var vatnið slegið af milli 9 að morgni til 4 síðdegis og vatn fraus í lögnum á nokkrum heimilum á Stokkseyri og Eyrarbakka. Íbúar bíða mats á tjóni.

Drífa Pálín Geirsdóttir, íbúi í Árborg segir ástandið í hitaveitumálum á svæðinu óboðlegt. Drífa þurfti að kalla til pípulagningamann í gær, vegna frosts í lögnum á heimili sínu á Eyrarbakka.

„Krakkarnir eru sendir heim af því að það er of kalt og við vorum ekki látin vita af þessu til að geta slökkt á neinu hjá okkur,“ segir Drífa. „Mér skildist á píparanum að leiðslurnar hingað niður eftir væru eins og gatasigti.“

Svæðið stórt og kuldinn mikill

Að mati Drífu liggur hluti vandans í stærð svæðisins sem röskunin nær til. „Þegar skorið er af hjá Árborg er vatnið tekið af Tjarnarbyggð, Sandvíkurhreppi, Stokkseyri og Eyrarbakka,“ segir hún. „Lokað var fyrir vatnið kl 9 í gærmorgun og kerfinu hleypt á aftur klukkan 4 í gær, en út af því að þetta er svo stórt svæði og svo mikill kuldi, er þetta ekki komið í gang fyrr en um það leyti þegar píparinn kom, klukkan 10 í gærkvöldi,“´segir Drífa.

„Vatnið var þá komið á, en þrýstingurinn of lítill af því að það er verið að hleypa á í fjórum litlum þorpum samtímis,“ segir Drífa. Hún bætir við að þetta sé langt frá því að vera einsdæmi, heldur séu raskanir af þessum toga tíður viðburður, íbúar fái ekkert að vita og upplýsingamiðlun sé almennt léleg.

Bilun í sms-kerfi

Sigurður Þór Haraldsson veitustjóri hjá Árborg sagði í samtali við Fréttablaðið í dag, að skortur á upplýsingagjöf af hálfu Selfossveita í þessu tilfelli mætti rekja til bilunar í sms-kerfi sem alla jafna er notast við.

„Við höfum sent út sms á alla íbúa sem verða fyrir röskun, en því miður kom upp bilun í sms-kerfinu í gær þegar við ætluðum að senda það út, þannig að við urðum að láta duga að auglýsa þetta,“ segir Sigurður. Málið sé afleiðing af þekktri bilun í stofnlögn.

Aðspurður segir Sigurður að auglýsingarnar hafi birst á vefsíðu Árborgar og á Facebook-síðum íbúa sveitarfélagsins. „Þetta fer inn á allar íbúasíðurnar á Facebook. En við treystum annars mikið á þetta sms-kerfi, það var algjör bylting þegar það kom [fyrst].“

Sigurður taldi ólíklegt að frostskemmdir hefðu orðið í gær, og sagði röskun gærdagsins hafa verið í styttra lagi. Aðspurður sagðist hann ekki geta sagt um hver bæri kostnað af tjóni, ef tjón yrði á lögnum í einkaeigu, en vísaði á tryggingafélögin í því samhengi. „Það þarf að meta það í hvert skipti fyrir sig.“